Starfsmenn í tívolíinu Friheden í Árósum í Danmörku eru meðal þeirra sem lögreglan ætlar að yfirheyra vegna banaslyssins sem varð þar í gær. Óljóst er hvenær tívolíð opnar aftur þar sem lögreglan rannsakar nú slysið á staðnum.
Danska ríkisútvarpið greinir frá.
Greint var frá því í gær að 14 ára stúlka hafi látið lífið er rússíbani bilaði í tívolíinu. 13 ára strákur slasaðist einnig í slysinu.
Þá hefur lögreglan hvatt fólk til að deila hvorki myndum né myndböndum af slysinu á samfélagsmiðlum.
Árið 2008 varð slys í sama rússíbana í Friheden-tívolíinu. Þá slösuðust fjórir eftir að vagn af rússíbananum losnaði frá hinum og féll niður á jörðina.
Þau sem slösuðust voru öll rúmlega tvítug að aldri.
Mbl.is greindi frá málinu á sínum tíma.
Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að lögreglan muni skoða hvort eitthvað frá slysinu árið 2008 geti hjálpað við að skýra orsök slyssins í gær.