Steve Barclay, heilbrigðisráðherra Bretlands, hvatti almenning í dag til að passa upp á viðkvæma ættingja og nágranna, vegna yfirvofandi hitabylgju í landinu.
„Skýr skilaboð til almennings eru að gera skynsamlegar ráðstafanir hvað varðar vatn, skugga og skjól. Það er besta leiðin til að draga úr hitanum.“
BBC greinir frá, en lýst hefur verið yfir neyðarástandi á landsvísu og fyrsta „rauða“ viðvörunin verið gefin út, þar sem hitinn gæti farið upp í 41 stig í næstu viku.
Þá hefur heilbrigðisöryggisstofnun Bretlands (UKHSA) varað við því að veikindi og dauðsföll gætu orðið meðal heilbrigðra einstaklinga. Flest dauðsföll í hitabylgju eru yfirleitt af völdum hjartaáfalls eða heilablóðfalls vegna álags við að reyna að halda líkamshita stöðugum.
Ráðstafanir vegna hitabylgjunnar verða gerðar er varða sjúkraflutninga og fleira starfsfólk mun sinna símaþjónustu. Þá verður reynt að losa um pláss á sjúkrahúsum svo sjúklingar verði ekki fastir í sjúkrabílum fyrir utan.
Yfirvöld hafa varað við truflun á samgöngum og er fólk hvatt til að ferðast ekki nema nauðsyn krefji. Hitinn muni hafa áhrif á lestarteina, þannig að lestirnar verða að fara hægar. Þá gæti fólk þurft að vinna heiman frá.
Skólayfirvöld hafa fengið leiðbeiningar sem gera þeim kleift að halda skólum opnum í næstu viku, en einhverjir skólar verða þó lokaðir.