Þátttaka rússneskra stjórnvalda í fundi fjármálaráðherra G20-ríkjanna, í skugga innrásar sinnar í Úkraínu, var fáránleg. Þetta fullyrðir fjármálaráðherra Kanada.
Á fundinum, sem stóð yfir í tvo daga á indónesísku eyjunni Balí, reyndu ráðherrarnir að leita lausna við aðsteðjandi fæðu- og orkukreppu á sama tíma og þeir sökuðu Rússa um að gera vandann einungis verri.
Ráðherrunum mistókst þá að komast að niðurstöðu og gefa frá sér ályktun í lok fundarins.
Chrystia Freeland, sem tók þátt fyrir hönd Kanada, segir ríkisstjórn sína hafa komið því til skila á fundinum að hún vildi ekki að Rússar yrðu viðstaddir hann.
„Viðvera Rússlands á þessum fundi var eins og að bjóða brennuvargi á fund slökkviliðsmanna,“ sagði Freeland við blaðamenn þar sem hún svaraði spurningum þeirra yfir netið frá Balí í dag.
„Það er vegna þess að Rússland ber eitt og sér beina ábyrgð á ólöglegri innrás í Úkraínu, og efnahagslegum afleiðingum hennar, sem við finnum öll fyrir,“ bætti Freeland við, sem einnig er varaforsætisráðherra og af úkraínsku bergi brotin.
„Við vorum skýr og eindregin um það að þátttaka Rússlands væri óviðeigandi og hreinlega, bara absúrd.“
Freeland varði einnig þá ákvörðun kanadískra stjórnvalda að heimila sendingu á túrbínu frá Kanada til Þýskalands, eftir að gert hafði verið við hana vestan Atlantshafsins, til notkunar í Nord Stream 1-gasleiðslunni sem flytur rússneskt gas til Evrópu.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, gagnrýndi leyfisveitinguna harðlega.
„Þær orkuáskoranir sem Þýskaland og margir evrópskir félagar okkar standa frammi fyrir eru mjög raunverulegar. Og Kanada viðurkennir það.“