Farmur vélarinnar sagður hættulegur

Frá útsendingu gríska ríkissjónvarpsins.
Frá útsendingu gríska ríkissjónvarpsins.

Engar opinberar upplýsingar hafa enn fengist um fjölda þess fólks sem var um borð í fraktflutningavélinni, sem brotlenti í norðurhluta Grikklands fyrr í kvöld.

Ríkismiðillinn ERT hefur þó fullyrt að átta manns hafi verið um borð, og enn fremur að farmur vélarinnar sé hættulegur. Lögregla hefur beðið blaðamenn á vettvangi að notast við grímur.

„Þið þurfið að fara á brott, öryggis ykkar vegna. Það eru upplýsingar um að flugvélin hafi verið að flytja skotfæri,“ tjáði einn slökkviliðsmaður viðstöddum blaðamönnum.

Úkraínsk flugvél

Vélin var á leið frá Serbíu til Jórdan­íu. Fjölmiðlar í Grikklandi fullyrða að um hafi verið að ræða úkraínska flugvél af gerðinni Antonov 12.

Brennur flakið enn á brotlendingarstaðnum, að því er sjá má í beinni útsendingu gríska ríkissjónvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert