Dimitar Kovacevski, forsætisráðherra Norður-Makedóníu, tilkynnti í dag að stjórnvöld í höfuðborginni Skopje hefðu náð samkomulagi við nágranna sína í Búlgaríu og þannig bundið enda á áralanga deilu. Með samkomulaginu sé loks hægt að hefja viðræður um inngöngu í Evrópusambandið.
„Loksins, eftir sautján ár, hefjum við ferli inngönguviðræðna við Evrópusambandið,“ sagði Kovacevski við blaðamenn eftir atkvæðagreiðslu í þinginu og bætti við að um væri að ræða sögulegt skref.
Búlgaría, sem stendur innan ESB, hefur hingað til komið í veg fyrir viðræðurnar og borið fyrir sig deilu á milli ríkjanna sem varða tungumál og sögu þeirra.
Stjórnvöld landsins drógu þá andstöðu sína til baka í síðasta mánuði, í skiptum fyrir loforð ESB þess efnis að Norður-Makedónía uppfylli ákveðnar kröfur í málaflokkunum.
Meðal annars þurfi Norður-Makedónía að geta Búlgara í stjórnarskrá sinni, „á jöfnum grundvelli með öðrum þjóðum“, og fullgilda milliríkjasamning um vinskap, góðan grannskap og samvinnu við Búlgaríu, sem undirritaður var árið 2017.