Þrír létust í borginni Dnípró í Úkraínu í morgun þegar rússneskar eldflaugar rákust á geimverksmiðjuna Júsmasj og nærliggjandi götu. BBC greinir frá.
Um fimmtán manns særðust og íbúðarhús skemmdust. Samkvæmt rússneska varnarmálaráðuneytinu framleiddi verksmiðjan hluti fyrir úkraínskar eldflaugar.
Í Dnípró hefur verið tekið á móti mörgum Úkraínumönnum sem hafa flúið átökin á Donbas-svæðinu. Boris Fílatov, borgarstjóri Dnípró, hefur hins vegar hvatt fólk til þess að yfirgefa borgina.
Tveir aðrir eru einnig látnir eftir að tugum rússneskra eldflauga var skotið á borgina Níkópol, suður af Dnípró. Þá var eldflaugum skotið á húsnæði í bænum Tsjúhúív, nálægt Karkív, með þeim afleiðingum að þrír létu lífið, að sögn ríkisstjóra Karkív.
Joe Inwood, fréttamaður BBC í Kænugarði, segir að þar sem hægt hafi á sókn Rússa í austri hafi árásum úr lofti fjölgað, sem oft snerti miðborgir.