Óskhyggja að Pútín sé alvarlega veikur

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Tony Radakin, yfirmaður breska hersins, segir það vera óskhyggju að telja að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sé alvarlega lasinn eða að hann verði myrtur. 

Í viðtali við BBC sagði Radakin að næsti leiðtogi Bretlands ætti að vita að „mesta ógnin“ kæmi frá Rússlandi og að áskoranir tengdar ríkinu myndu vara í áratugi. 

Tony Radakin, yfirmaður breska hersins.
Tony Radakin, yfirmaður breska hersins. Ljósmynd/Wikipedia.org

„Ég held að sum ummælanna um að hann sé ekki heill heilsu eða að einhver muni myrða hann séu einungis óskhyggja. Sem sérfræðingar í varnarmálum sjáum við að stjórn Rússa er nokkuð stöðug,“ sagði Radakin og bætti við að Pútín hefur getað kveðið niður alla andstöðu við stjórn hans. 

Radakin sagði rússneska embættismenn styðja forsetann og því hafi enginn af efstu ráðamönnum haft hvatninguna til þess að bjóða sig fram gegn honum. 

„Og það er dapurt.“

Radakin nefndi þó að stríðið í Úkraínu hefði veikt rússneska herinn. Um 50 þúsund rússneskir hermenn hafa verið drepnir eða særst í átökunum. 

Radakin nefndi þó einnig að Rússar haldi áfram að vera kjarnorkuveldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert