Verkfallið kostar SAS meira en milljarð dag hvern

Skandinavíska flugfélagið SAS.
Skandinavíska flugfélagið SAS. AFP

Samningaviðræður skandinavíska flugfélagsins SAS og flugmanna félagsins standa enn yfir en þrettándi dagur verkfalls flugmannanna hófst í dag. 

Á vef TV2 kemur fram að klukkan sex í morgun stóðu samningaviðræður enn yfir í Stokkhólmi en þær hafa staðið yfir síðan klukkan tíu í gærmorgun.

„Maður tekur jú eftir því að maður hefur verið svefnlaus í mjög langan tíma,“ sagði Marianne Hernæs, aðalsamningamaður viðræðanna, í viðtali við norska miðilinn.

Aflýst fleiri en 2.100 ferðum í Noregi

Roger Klokset, formaður norsku SAS flugmannasamtakanna, sagði að viðræðurnar myndu halda áfram í dag. 

Hann sagðist óviss um hvort samningur næðist í dag. „Við höfum ekki samning fyrr en við höfum samning,“ sagði Klokset. 

Verkfallið hófst 4. júlí og hefur hingað til kostað flugfélagið um 100 til 130 milljónir norskra króna dag hvern, nærri einn og hálfan milljarð íslenskra króna. 

Um 900 danskir, norskir og sænskir flugmenn eru í verkfalli og hafa alls hafa rúmlega 2.100 flugferðum verið aflýst í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert