Lík finnast enn

Varúð. Sprengjur. Almannavarnir Úkraínu reyna að bjarga þeim sem kunna …
Varúð. Sprengjur. Almannavarnir Úkraínu reyna að bjarga þeim sem kunna að vera á lífi undir rústunum eftir árásina. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Jón Gauti Jóhannesson, fréttaritari Morgunblaðsins, og Oksana Jóhannesson, ljósmyndari blaðsins, eru á ferð um Donbas-hérað í Úkraínu, þungamiðju sóknar rússneska hersins. 

Árásin hófst að kvöldi. Valerý vaknaði við mikla sprengingu og ljós eins og sól hafi risið. Þegar hann reis upp úr rúminu kvað við önnur. Sprengingin splundraði gluggum í svefnherberginu og þeytti glerbrotum í höfuð Valerýs. Blóðið fossaði í augu hans. Hann átti erfitt með að sjá, en staulaðist fram á gang í betra skjól. Þriðja og fjórða sprengjan sprakk og feykti braki og glerbrotum inn í íbúðina. Valerý sundlaði, glerbrot stungust í fætur hans og hann féll til jarðar. Þar lá hann særður, óttasleginn og blindaður af blóði þangað til úkraínski herinn kom honum til hjálpar um hálftíma síðar.

„Ég gefst ekki upp,“ segir Valerý. „Ég fer ekki neitt. Ég hef búið hér síðan 1983. Þetta er mín íbúð. Það er búið að gera að sárum mínum. Nú þarf að koma íbúðinni aftur í stand og halda áfram að lifa.“

Valerý særðist á enni og fótum í árásinni. Hann segist …
Valerý særðist á enni og fótum í árásinni. Hann segist ekki fara neitt. Hann ætlar að koma íbúðinni sinni aftur í stand. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Hægt hefur á framsókn rússneska hersins í Donbas í þessari viku, en eldflaugaárásir á úkraínskar borgir hafa aukist. Auk Tsjasív Jar hafa verið gerðar árásir borgirnar Mýkolayív, Dnípro, Vínnytsya og Kharkiv. Árásin á Tsjasív Jar er ein sú mannskæðasta í þessu stríði, einungis árásin á járnbrautarstöðina í Kramatorsk í byrjun apríl leiddi til meira mannfalls meðal óbreytra borgara. Fjórum eldflaugum af gerðinni Iskander (skammdræg skotflaug) var skotið á íbúðahverfið í Tsjasív Jar, sem fyrir stríð var 10.000 manna bær.

Hluti af einni byggingu, heimavist, hrundi til grunna. Nú þegar hafa lík 46 manna fundist. 8 manns hefur verið bjargað úr rústunum, sem er í raun ótrúlegt þegar horft er á 4 metra háan haug af múrsteinum sem þekur stórt svæði. Fyrir Guðs mildi hafa einhverjir lent á milli veggja þegar íbúðablokkin hrundi á þann hátt að það hefur myndast holrými í rústunum sem kremur fórnarlömbin ekki til dauða. Eftir nokkra klukkutíma á svæðinu fylgjumst við með því hvernig manni á lífi er bjargað úr rústunum. Hann var í sturtu þegar byggingin hrundi og var undir rústunum á 21 tíma. Hann er særður á fótum og fær strax verkjastillandi sprautu.  

Fólk liggur grafið undir rústunum. Almannavarnir Úkraínu reyna að átta …
Fólk liggur grafið undir rústunum. Almannavarnir Úkraínu reyna að átta sig á því hvaðan hróp berast. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Að vera grafinn undir í rústum hlýtur að vera ein versta lífsreynsla sem hægt er að ímynda sér. Þú getur þig hvergi hreyft í fullkomnu myrkri, þú hefur ekkert vatn, þú hefur takmarkað súrefni, aðeins högghljóð björgunarsveita að ofan gefa þér von. Við höfum fylgst með því hvernig almannavarnir Úkraínu fjarlægja húsveggi með krönum og múrsteina stein af steini til að komast að þeim sem kunna að vera á lífi. Rúmlega 300 manns taka þátt í björgunarstörfunum. Rústabjörgunin tekur langan tíma með hverri mínútu minnka líkur á því að hægt sé að finna fólk á lífi. Um 450 tonn af rústum hafa þegar verið fjarlægð.

Sjónvarp, ryksuga og ábreiða. Fólk reynir að bjarga því sem …
Sjónvarp, ryksuga og ábreiða. Fólk reynir að bjarga því sem er heillegt úr íbúðum. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Rússneska varnarmálaráðuneytið heldur því fram að í þessari árás hafi meira en 300 „þjóðernissinnum“ verið útrýmt. Það er rangt. Um 50 manns féllu í árásinni, margir af þeim hermenn sem dvöldu á heimavistinni, en meirihlutinn virðist vera óbreyttir borgarar. Rússnesk stjórnvöld kalla úkraínska herinn yfirleitt þjóðernissinna, skæruliða eða vígamenn, ekki lögmætan her fullvalda ríkis.

Fólk flytur það sem eftir er af veraldlegum eignum úr …
Fólk flytur það sem eftir er af veraldlegum eignum úr íbúðum eftir sprengjuárásina. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Eignum hlaðið í bifreiðar, þvottavélum, teppum og húsmunum. Margir flytja …
Eignum hlaðið í bifreiðar, þvottavélum, teppum og húsmunum. Margir flytja í sumarhús sín eða til ættingja, aðrir vita ekki hvað þeir eiga að gera. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Flestar íbúðir í blokk gegnt  heimavistinni hafa verið gereyðilagðar. Fólk reynir að bjarga því sem bjargað verður - þvottavélum, ísskápum, sjónvörpum, teppum og fatnaði. Þetta er það eina sem eftir er að veraldlegum eignum. Þeir sem eiga sumarhús flytja þangað, aðrir hyggjast flytja til ættingja, enn aðrir vita ekki hvað þeir eiga að gera.

Lera stendur við ískáp og rúmdýnur. Þetta er eitt af …
Lera stendur við ískáp og rúmdýnur. Þetta er eitt af því fáa sem heilt er af húsmunum úr íbúðinni hennar. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Níkolaj flytur vatnshitara úr íbúðinni sinni. Hann mun flytja til …
Níkolaj flytur vatnshitara úr íbúðinni sinni. Hann mun flytja til ættingja þangað til hann finnur annan samstað. Íbúðin hans er gjöreyðilögð. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Það er sérkennilegt að ganga um yfirgefnar íbúðir. Þú gengur inn í heim fólks sem nú er horfinn. Nær alstaðar hafa dyr verið sprengdar úr íbúðum eða hurðakarmar og veggir það skaddaðir að ekki er hægt að loka dyrum. Barnaleikföng sjást víða innan um glerbrot og brak. Bækur, fjölskyldumyndir og eldhúsmunir liggja á víð og dreif. Loft eru sum staðar hálfhrunin og húsgögn og teppi af efri hæðum sligast niður. Blóðför eru víða á veggjum og gólfum.

Stofa í íbúð. Loftið að ofan er stórskemmt og húsgögn …
Stofa í íbúð. Loftið að ofan er stórskemmt og húsgögn sligast niður. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Flamingóar á nýlögðu veggfóðri. Það eina sem er nær óskaddað …
Flamingóar á nýlögðu veggfóðri. Það eina sem er nær óskaddað í íbúðinni. Fólk átti sér drauma sem nú eru að engu orðnir. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Ljón á rúmi. Barnaleikföng liggja víðsvegar í yfirgefnum íbúðum.
Ljón á rúmi. Barnaleikföng liggja víðsvegar í yfirgefnum íbúðum. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Öll húsgögn, gluggar og útveggir hafa skemmst í íbúðum í …
Öll húsgögn, gluggar og útveggir hafa skemmst í íbúðum í sprengjuárásinni. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Fjölskyldumynd í svefnherbergi í eyðilagðri íbúð. Óvíst er hvað varð …
Fjölskyldumynd í svefnherbergi í eyðilagðri íbúð. Óvíst er hvað varð um íbúana. mbl.is/Oksana Jóhannesson


Valerý horfir áhyggjufullur á rústabjörgunina. Systur hans og 9 ára syni hennar er saknað. Þau bjuggu í fjölbýlishúsinu sem hrundi og eru nú föst undir rústunum, lífs eða liðin. Valerý segir okkur að biðin milli vonar og ótta sé skelfileg. „Ég bara stari á rústirnar og fylgist með hverri hreyfingu björgunarsveitanna.  Ég get varla haldið aftur af tárunum. Hjarta mitt er að rifna af áhyggjum“. Hann fyllist von þegar björgunarsveitirnar finna fólk á lífi, „ég bið til Guðs að þetta séu systir mín og sonur hennar, en síðan fyllist ég angist þegar mér er sagt að þetta hafi ekki verið þau.“

Almannavarnir Úkraínu við hjálparstörf. Hlustað er eftir hljóðum frá þeim …
Almannavarnir Úkraínu við hjálparstörf. Hlustað er eftir hljóðum frá þeim sem kunna að vera á lífi. 320 manns tóku þátt í björgunarstarfinu. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Tetjana situr grátandi á vegakanti og segir okkur að íbúðin hennar hafi gereyðilagst. „Ég græt ekki vegna íbúðarinnar…ég bjó í henni í 15 ár. Ég græt vegna þeirra sem dóu og vegna kettlingsins míns sem var í búðinni. Ég var í göngutúr ásamt manninum mínum þegar sprengjurnar féllu og það bjargaði lífi okkar.  Við munum endurbyggja líf okkar, þótt ég viti ekki hvar við munum sofa í nótt.“ Hún bendir okkur á íbúðina, sem er á efstu hæð. Við förum þangað og við blasir gífurleg eyðilegging. Sprengingarnar hafa sprengt þakið af hluta íbúðarinnar og útvegg. Það er í raun mikil mildi að mannfall meðal óbreyttra borgara í þessari blokk hafi ekki verið meira.

Tetjana tapaði aleigunni í árásinni. Hún grætur þá sem fórust …
Tetjana tapaði aleigunni í árásinni. Hún grætur þá sem fórust og fjörurra mánaða kettlinginn sinn. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Íbúð Tetjönu er á efstu hæð til hægri. Það varð …
Íbúð Tetjönu er á efstu hæð til hægri. Það varð henni til lífs að hún var í göngutúr þegar árásin átti sér stað. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Íbúð Tetjönu. Bæði þak og útveggir hafa verið sprengdir í …
Íbúð Tetjönu. Bæði þak og útveggir hafa verið sprengdir í tætlur. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Þegar við tökum fólk tali fyrir framan blokkina heyrist í rússneskri herþotu. Einhver hrópar: „Haupum, hlaupum…orrustuþota aftur…árás!“. Við hlaupum eins og fætur toga ásamt íbúum í skjól í kjallara. Kona að nafni Svitlana leitar í flýti að eldspýtum til að kveikja á kerti við íkona í kjallaranum. Herþotan flýgur yfir blokkina án þess að skjóta flugskeytum. Við heyrum sprengingar í fjarska og líklega hefur herþotan skotið á víglínu úkraínska hersins, sem er í um 4 km fjarlægð. Við sitjum í kjallaranum ásamt íbúunum dágóða stund, ef vera skyldi að herþotan snúi aftur. Kertaljósið við íkonan varpa daufu ljósi á mædd og áhyggjufull andlit „Svona höfum við lifað undanfarið…á hlaupum niður í þennan kjallara. Ég vona þessi úrhrök drepist allir,“ segir Svitlana við okkur. „Ekki fara neitt, verið hérna hjá okkur – það getur bjargað lifi ykkar. Við munum sitja hér lengi…þessir djöflar eru til alls líklegir.“

Svitlana kveikir á kerti við íkona í kjallara þegar sprengjuárás …
Svitlana kveikir á kerti við íkona í kjallara þegar sprengjuárás er yfirvofandi. mbl.is/Oksana Jóhannesson
Íbúar fjölbýlishúss leita skjóls í kjallara eftir að rússnesk orrustuþota …
Íbúar fjölbýlishúss leita skjóls í kjallara eftir að rússnesk orrustuþota flaug í átt að húsinu. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Þegar við förum frá Tsjasív Jar undir kvöld bíður Valerý enn frétta af systur sinni og frænda sínum. Hann horfir yfir rústirnar, tár renna niður kinnar hans og það læðist að honum sá grunur að hann muni aldrei sjá þau aftur á lífi.

Valerý bíður örvæntingafullur frétta af systur sinni og frænda sem …
Valerý bíður örvæntingafullur frétta af systur sinni og frænda sem grófust undir í rústunum. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Björgunarstörfum er lokið. 9 manns var bjargað úr rústunum. Lík 48 átta manns fundust, þar á meðal lík 9 ára gamals drengs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert