Lík finnast enn

Varúð. Sprengjur. Almannavarnir Úkraínu reyna að bjarga þeim sem kunna …
Varúð. Sprengjur. Almannavarnir Úkraínu reyna að bjarga þeim sem kunna að vera á lífi undir rústunum eftir árásina. mbl.is/Oksana Jóhannesson

Jón Gauti Jó­hann­es­son, frétta­rit­ari Morg­un­blaðsins, og Oks­ana Jó­hann­es­son, ljós­mynd­ari blaðsins, eru á ferð um Don­bas-hérað í Úkraínu, þunga­miðju sókn­ar rúss­neska hers­ins. 

Árás­in hófst að kvöldi. Val­erý vaknaði við mikla spreng­ingu og ljós eins og sól hafi risið. Þegar hann reis upp úr rúm­inu kvað við önn­ur. Spreng­ing­in splundraði glugg­um í svefn­her­berg­inu og þeytti gler­brot­um í höfuð Val­erýs. Blóðið fossaði í augu hans. Hann átti erfitt með að sjá, en staulaðist fram á gang í betra skjól. Þriðja og fjórða sprengj­an sprakk og feykti braki og gler­brot­um inn í íbúðina. Val­erý sundlaði, gler­brot stung­ust í fæt­ur hans og hann féll til jarðar. Þar lá hann særður, ótta­sleg­inn og blindaður af blóði þangað til úkraínski her­inn kom hon­um til hjálp­ar um hálf­tíma síðar.

„Ég gefst ekki upp,“ seg­ir Val­erý. „Ég fer ekki neitt. Ég hef búið hér síðan 1983. Þetta er mín íbúð. Það er búið að gera að sár­um mín­um. Nú þarf að koma íbúðinni aft­ur í stand og halda áfram að lifa.“

Valerý særðist á enni og fótum í árásinni. Hann segist …
Val­erý særðist á enni og fót­um í árás­inni. Hann seg­ist ekki fara neitt. Hann ætl­ar að koma íbúðinni sinni aft­ur í stand. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Hægt hef­ur á fram­sókn rúss­neska hers­ins í Don­bas í þess­ari viku, en eld­flauga­árás­ir á úkraínsk­ar borg­ir hafa auk­ist. Auk Tsjasív Jar hafa verið gerðar árás­ir borg­irn­ar Mý­kolayív, Dnípro, Vínnytsya og Kharkiv. Árás­in á Tsjasív Jar er ein sú mann­skæðasta í þessu stríði, ein­ung­is árás­in á járn­braut­ar­stöðina í Kramatorsk í byrj­un apríl leiddi til meira mann­falls meðal óbreytra borg­ara. Fjór­um eld­flaug­um af gerðinni Isk­and­er (skammdræg skot­flaug) var skotið á íbúðahverfið í Tsjasív Jar, sem fyr­ir stríð var 10.000 manna bær.

Hluti af einni bygg­ingu, heima­vist, hrundi til grunna. Nú þegar hafa lík 46 manna fund­ist. 8 manns hef­ur verið bjargað úr rúst­un­um, sem er í raun ótrú­legt þegar horft er á 4 metra háan haug af múr­stein­um sem þekur stórt svæði. Fyr­ir Guðs mildi hafa ein­hverj­ir lent á milli veggja þegar íbúðablokk­in hrundi á þann hátt að það hef­ur mynd­ast hol­rými í rúst­un­um sem krem­ur fórn­ar­lömb­in ekki til dauða. Eft­ir nokkra klukku­tíma á svæðinu fylgj­umst við með því hvernig manni á lífi er bjargað úr rúst­un­um. Hann var í sturtu þegar bygg­ing­in hrundi og var und­ir rúst­un­um á 21 tíma. Hann er særður á fót­um og fær strax verkj­astill­andi sprautu.  

Fólk liggur grafið undir rústunum. Almannavarnir Úkraínu reyna að átta …
Fólk ligg­ur grafið und­ir rúst­un­um. Al­manna­varn­ir Úkraínu reyna að átta sig á því hvaðan hróp ber­ast. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Að vera graf­inn und­ir í rúst­um hlýt­ur að vera ein versta lífs­reynsla sem hægt er að ímynda sér. Þú get­ur þig hvergi hreyft í full­komnu myrkri, þú hef­ur ekk­ert vatn, þú hef­ur tak­markað súr­efni, aðeins högg­hljóð björg­un­ar­sveita að ofan gefa þér von. Við höf­um fylgst með því hvernig al­manna­varn­ir Úkraínu fjar­lægja hús­veggi með krön­um og múr­steina stein af steini til að kom­ast að þeim sem kunna að vera á lífi. Rúm­lega 300 manns taka þátt í björg­un­ar­störf­un­um. Rúst­a­björg­un­in tek­ur lang­an tíma með hverri mín­útu minnka lík­ur á því að hægt sé að finna fólk á lífi. Um 450 tonn af rúst­um hafa þegar verið fjar­lægð.

Sjónvarp, ryksuga og ábreiða. Fólk reynir að bjarga því sem …
Sjón­varp, ryk­suga og ábreiða. Fólk reyn­ir að bjarga því sem er heil­legt úr íbúðum. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Rúss­neska varn­ar­málaráðuneytið held­ur því fram að í þess­ari árás hafi meira en 300 „þjóðern­is­sinn­um“ verið út­rýmt. Það er rangt. Um 50 manns féllu í árás­inni, marg­ir af þeim her­menn sem dvöldu á heima­vist­inni, en meiri­hlut­inn virðist vera óbreytt­ir borg­ar­ar. Rúss­nesk stjórn­völd kalla úkraínska her­inn yf­ir­leitt þjóðern­is­sinna, skæru­liða eða víga­menn, ekki lög­mæt­an her full­valda rík­is.

Fólk flytur það sem eftir er af veraldlegum eignum úr …
Fólk flyt­ur það sem eft­ir er af ver­ald­leg­um eign­um úr íbúðum eft­ir sprengju­árás­ina. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Eignum hlaðið í bifreiðar, þvottavélum, teppum og húsmunum. Margir flytja …
Eign­um hlaðið í bif­reiðar, þvotta­vél­um, tepp­um og hús­mun­um. Marg­ir flytja í sum­ar­hús sín eða til ætt­ingja, aðrir vita ekki hvað þeir eiga að gera. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Flest­ar íbúðir í blokk gegnt  heima­vist­inni hafa verið gereyðilagðar. Fólk reyn­ir að bjarga því sem bjargað verður - þvotta­vél­um, ís­skáp­um, sjón­vörp­um, tepp­um og fatnaði. Þetta er það eina sem eft­ir er að ver­ald­leg­um eign­um. Þeir sem eiga sum­ar­hús flytja þangað, aðrir hyggj­ast flytja til ætt­ingja, enn aðrir vita ekki hvað þeir eiga að gera.

Lera stendur við ískáp og rúmdýnur. Þetta er eitt af …
Lera stend­ur við ískáp og rúm­dýn­ur. Þetta er eitt af því fáa sem heilt er af hús­mun­um úr íbúðinni henn­ar. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Níkolaj flytur vatnshitara úr íbúðinni sinni. Hann mun flytja til …
Ní­kolaj flyt­ur vatns­hit­ara úr íbúðinni sinni. Hann mun flytja til ætt­ingja þangað til hann finn­ur ann­an samstað. Íbúðin hans er gjör­eyðilögð. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Það er sér­kenni­legt að ganga um yf­ir­gefn­ar íbúðir. Þú geng­ur inn í heim fólks sem nú er horf­inn. Nær alstaðar hafa dyr verið sprengd­ar úr íbúðum eða hurðakarm­ar og vegg­ir það skaddaðir að ekki er hægt að loka dyr­um. Barna­leik­föng sjást víða inn­an um gler­brot og brak. Bæk­ur, fjöl­skyldu­mynd­ir og eld­hús­mun­ir liggja á víð og dreif. Loft eru sum staðar hálf­hrun­in og hús­gögn og teppi af efri hæðum slig­ast niður. Blóðför eru víða á veggj­um og gólf­um.

Stofa í íbúð. Loftið að ofan er stórskemmt og húsgögn …
Stofa í íbúð. Loftið að ofan er stór­skemmt og hús­gögn slig­ast niður. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Flamingóar á nýlögðu veggfóðri. Það eina sem er nær óskaddað …
Flam­ingó­ar á ný­lögðu vegg­fóðri. Það eina sem er nær óskaddað í íbúðinni. Fólk átti sér drauma sem nú eru að engu orðnir. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Ljón á rúmi. Barnaleikföng liggja víðsvegar í yfirgefnum íbúðum.
Ljón á rúmi. Barna­leik­föng liggja víðsveg­ar í yf­ir­gefn­um íbúðum. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Öll húsgögn, gluggar og útveggir hafa skemmst í íbúðum í …
Öll hús­gögn, glugg­ar og út­vegg­ir hafa skemmst í íbúðum í sprengju­árás­inni. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Fjölskyldumynd í svefnherbergi í eyðilagðri íbúð. Óvíst er hvað varð …
Fjöl­skyldu­mynd í svefn­her­bergi í eyðilagðri íbúð. Óvíst er hvað varð um íbú­ana. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son


Val­erý horf­ir áhyggju­full­ur á rúst­a­björg­un­ina. Syst­ur hans og 9 ára syni henn­ar er saknað. Þau bjuggu í fjöl­býl­is­hús­inu sem hrundi og eru nú föst und­ir rúst­un­um, lífs eða liðin. Val­erý seg­ir okk­ur að biðin milli von­ar og ótta sé skelfi­leg. „Ég bara stari á rúst­irn­ar og fylg­ist með hverri hreyf­ingu björg­un­ar­sveit­anna.  Ég get varla haldið aft­ur af tár­un­um. Hjarta mitt er að rifna af áhyggj­um“. Hann fyll­ist von þegar björg­un­ar­sveit­irn­ar finna fólk á lífi, „ég bið til Guðs að þetta séu syst­ir mín og son­ur henn­ar, en síðan fyll­ist ég ang­ist þegar mér er sagt að þetta hafi ekki verið þau.“

Almannavarnir Úkraínu við hjálparstörf. Hlustað er eftir hljóðum frá þeim …
Al­manna­varn­ir Úkraínu við hjálp­ar­störf. Hlustað er eft­ir hljóðum frá þeim sem kunna að vera á lífi. 320 manns tóku þátt í björg­un­ar­starf­inu. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Tetj­ana sit­ur grát­andi á vegakanti og seg­ir okk­ur að íbúðin henn­ar hafi gereyðilagst. „Ég græt ekki vegna íbúðar­inn­ar…ég bjó í henni í 15 ár. Ég græt vegna þeirra sem dóu og vegna kett­lings­ins míns sem var í búðinni. Ég var í göngu­túr ásamt mann­in­um mín­um þegar sprengj­urn­ar féllu og það bjargaði lífi okk­ar.  Við mun­um end­ur­byggja líf okk­ar, þótt ég viti ekki hvar við mun­um sofa í nótt.“ Hún bend­ir okk­ur á íbúðina, sem er á efstu hæð. Við för­um þangað og við blas­ir gíf­ur­leg eyðilegg­ing. Spreng­ing­arn­ar hafa sprengt þakið af hluta íbúðar­inn­ar og út­vegg. Það er í raun mik­il mildi að mann­fall meðal óbreyttra borg­ara í þess­ari blokk hafi ekki verið meira.

Tetjana tapaði aleigunni í árásinni. Hún grætur þá sem fórust …
Tetj­ana tapaði al­eig­unni í árás­inni. Hún græt­ur þá sem fór­ust og fjör­urra mánaða kett­ling­inn sinn. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Íbúð Tetjönu er á efstu hæð til hægri. Það varð …
Íbúð Tetjönu er á efstu hæð til hægri. Það varð henni til lífs að hún var í göngu­túr þegar árás­in átti sér stað. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Íbúð Tetjönu. Bæði þak og útveggir hafa verið sprengdir í …
Íbúð Tetjönu. Bæði þak og út­vegg­ir hafa verið sprengd­ir í tætl­ur. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Þegar við tök­um fólk tali fyr­ir fram­an blokk­ina heyr­ist í rúss­neskri herþotu. Ein­hver hróp­ar: „Haup­um, hlaup­um…orr­ustuþota aft­ur…árás!“. Við hlaup­um eins og fæt­ur toga ásamt íbú­um í skjól í kjall­ara. Kona að nafni Svitl­ana leit­ar í flýti að eld­spýt­um til að kveikja á kerti við íkona í kjall­ar­an­um. Herþotan flýg­ur yfir blokk­ina án þess að skjóta flug­skeyt­um. Við heyr­um spreng­ing­ar í fjarska og lík­lega hef­ur herþotan skotið á víg­línu úkraínska hers­ins, sem er í um 4 km fjar­lægð. Við sitj­um í kjall­ar­an­um ásamt íbú­un­um dágóða stund, ef vera skyldi að herþotan snúi aft­ur. Kerta­ljósið við íkon­an varpa daufu ljósi á mædd og áhyggju­full and­lit „Svona höf­um við lifað und­an­farið…á hlaup­um niður í þenn­an kjall­ara. Ég vona þessi úr­hrök drep­ist all­ir,“ seg­ir Svitl­ana við okk­ur. „Ekki fara neitt, verið hérna hjá okk­ur – það get­ur bjargað lifi ykk­ar. Við mun­um sitja hér lengi…þess­ir djöfl­ar eru til alls lík­leg­ir.“

Svitlana kveikir á kerti við íkona í kjallara þegar sprengjuárás …
Svitl­ana kveik­ir á kerti við íkona í kjall­ara þegar sprengju­árás er yf­ir­vof­andi. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son
Íbúar fjölbýlishúss leita skjóls í kjallara eftir að rússnesk orrustuþota …
Íbúar fjöl­býl­is­húss leita skjóls í kjall­ara eft­ir að rúss­nesk orr­ustuþota flaug í átt að hús­inu. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Þegar við för­um frá Tsjasív Jar und­ir kvöld bíður Val­erý enn frétta af syst­ur sinni og frænda sín­um. Hann horf­ir yfir rúst­irn­ar, tár renna niður kinn­ar hans og það læðist að hon­um sá grun­ur að hann muni aldrei sjá þau aft­ur á lífi.

Valerý bíður örvæntingafullur frétta af systur sinni og frænda sem …
Val­erý bíður ör­vænt­inga­full­ur frétta af syst­ur sinni og frænda sem gróf­ust und­ir í rúst­un­um. mbl.is/​Oks­ana Jó­hann­es­son

Björg­un­ar­störf­um er lokið. 9 manns var bjargað úr rúst­un­um. Lík 48 átta manns fund­ust, þar á meðal lík 9 ára gam­als drengs.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert