Karlmaður hóf skothríð í verslunarmiðstöð í Indiana-ríki í Bandaríkjunum í gær með þeim afleiðingum að þrír þolendur létust og tveir særðust. Þá batt „miskunnsamur samverji“ enda á árásina með því að drepa byssumanninn.
Hann gekk inn á veitingasvæði verslunarmiðstöðvarinnar, sem er staðsett í bænum Greenwood, um klukkan sex í gærkvöldi, eða tíu að íslenskum tíma, vopnaður riffli. Hann hóf skothríð samstundis, að sögn Jims Ison hjá lögreglunni í Greenwood.
12 ára stúlka er á meðal hinna særðu.
„Andlát fjögurra hafa verið staðfest,“ sagði Ison sem hrósaði vopnuðum vegfaranda fyrir að hafa bundið enda á árásina með því að skjóta byssumanninn til bana. Kallaði Ison vegfarandann „miskunnsaman samverja.“
„Hin raunverulega hetja dagsins er almennur borgari sem var löglega vopnaður á veitingasvæðinu og gat stöðvað byssumanninn nánast um leið og hann hóf skothríð,“ sagði Ison.
Hann bætti því við að árásin hafi skilið fólk í Greenwood eftir slegið.
„Þetta er ekki eitthvað sem við höfum séð áður í Greenwood. Þetta er algjörlega hræðilegt,“ sagði Ison.
Um er að ræða nýlegustu skotárásina í Bandaríkjunum en um 40.000 manns týna þar lífi á ári vegna byssuofbeldis. Einungis fyrir nokkrum vikum síðan hóf byssumaður skothríð á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna og drap sjö í Chicago. Fjölmargir særðust einnig í árásinni.
Í maímánuði voru tvær skotárásir framdar í Bandaríkjunum. Annars vegar þegar 10 voru drepnir í New York og hins vegar þegar 19 börn og tveir kennarar féllu í grunnskóla í Uvalde í Texas.