Þúsundir í viðbót yfirgefa heimili sín

Slökkviliðsmaður fylgist með skógareldi í Louchats í Gironde í suðvesturhluta …
Slökkviliðsmaður fylgist með skógareldi í Louchats í Gironde í suðvesturhluta Frakklands í gær. AFP/Thibaud Moritz

Hátt í tíu þúsund manns var gert að yfirgefa heimili sín í suðvesturhluta Frakklands í morgun vegna skógarelds.

Slökkviliðsmönnum hefur ekki tekist að hafa hemil á eldinum sem hefur geisað skammt frá Dune de Pilat, hæstu sandhólum Evrópu, þar sem síbreytilegir vindar hafa aukið hættuna á útbreiðslu á íbúðasvæði.

„Reykurinn er eitraður,“ sagði talsmaður slökkviliðsins, Arnaud Mendousse. „Það er mikilvægt fyrir almannaheill að vernda fólkið.“

Slökkviliðsmenn skammt frá borginni Origne í suðvesturhluta Frakklands í gær.
Slökkviliðsmenn skammt frá borginni Origne í suðvesturhluta Frakklands í gær. AFP/Philippe Lopez

Um fimm þúsund manns þurfti að yfirgefa Les Miquelots, sem er hverfi í Suður-Frakklandi í bænum Teste-de-Buch. Þrjú þúsund til viðbótar var gert að yfirgefa Pyla-sur-mer, suðvestur af borginni Bordeaux

Þetta er annar tveggja skógarelda sem hafa geisað í Frakklandi síðan snemma í síðustu víku í héraðinu Girdonde, suður af Bordeaux, en mikil hitabylgja hefur verið í Frakklandi undanfarið, rétt eins og annars staðar í suðvesturhluta Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert