17 þingmenn demókrata handteknir

Þingkonan Jackie Speier sést hér á mótmælunum í dag (önnur …
Þingkonan Jackie Speier sést hér á mótmælunum í dag (önnur til hægri). Anna Moneymaker/Getty Images/AFP

Að minnsta kosti 17 þingmenn Demókrataflokksins voru handteknir í mótmælum fyrir réttindum kvenna til þungunarrofs fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna í Washington í dag. Á meðal þeirra handteknu eru þingkonurnar Alexandria Ocasio-Cortez og Ilhan Omar. 

Fyrir tæpum mánuði snéri Hæstiréttur Bandaríkjanna við dómnum Roe gegn Wade sem hafði tryggt konum rétt til þungunarrofs í um 50 ár. Hinn nýi dómur hefur verið harðlega gagnrýndur.

Lögreglan greindi frá því á Twitter að mótmælendur hefðu truflað umferð og fengið þrjár viðvaranir áður en lögreglumenn handtóku þá. Alls voru 35 mótmælendur handteknir.

Mótmælin trufluðu umferð.
Mótmælin trufluðu umferð. Anna Moneymaker/Getty Images/AFP

Þingkonan Veronica Escobar greindi frá því á Twitter að hún væri meðal þeirra handteknu.

Þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez var einnig handtekin en myndbandi af handtöku hennar hefur verið deilt á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert