542.000 króna leigubíll

Roy Astor Hansen bílstjóri lengst til vinstri en á hægri …
Roy Astor Hansen bílstjóri lengst til vinstri en á hægri kantinum er fjölskyldan frá Boston, Ben MacGraw, Cynthia Clark og Willard MacGraw, sem skirrðust ekki við að taka leigubíl 1.350 kílómetra til að ná flugi, hringvegurinn um Ísland er um það bil nákvæmlega jafn langur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Verk­fall starfs­fólks skandi­nav­íska flug­fé­lags­ins SAS teyg­ir anga sína og áhrif víða og varð til þess að banda­rísk fjöl­skylda í sigl­ingu um norska firði tók leigu­bíl 1.350 kíló­metra, frá Tromsø í Nor­egi til finnsku höfuðborg­ar­inn­ar Hels­inki, einu færu leiðina til að kom­ast í flug heim til Bost­on.

„Ég var bú­inn að vera í stans­lausu sam­bandi við út­gerð skemmti­ferðaskips­ins í tvo daga til að finna leið til að koma okk­ur til Hels­inki, en þaðan bár­ust fá svör,“ seg­ir Ben MacGraw í sam­tali við norsku viðskiptaf­rétt­asíðuna E24, þá ný­kom­inn úr sigl­ingu með föður sín­um, Will­ard MacGraw og konu föður­ins, Cynt­hiu Clark.

Að lok­inni sigl­ingu um ann­áluðustu firði Nor­egs, sem þekkt­ir eru að kyrrð sinni og nátt­úru­feg­urð, varð dag­ljóst að fjöl­skyld­an frá Bost­on var ekki á leiðinni í flug SAS frá Tromsø til Hels­inki þar sem loka­legg­ur­inn Hels­inki til Bost­on beið þeirra. Ekk­ert varð af flugi SAS vegna verk­falls­ins, ekki fyrsta þrætu­epl­is þessa þó líf­seiga flug­fé­lags sem ein­hvern veg­inn hafn­ar alltaf í nýrri önd­un­ar­vél skandi­nav­ískra rík­is­stjórna þegar skór­inn krepp­ir.

Banda­ríkja­menn­irn­ir íhuguðu ýms­ar flug­leiðir með mis­mörg­um milli­lend­ing­um til að kom­ast tím­an­lega til Finn­lands en allt kom fyr­ir ekki. Kæm­ust þau ekki til Hels­inki á sunnu­dag­inn, í fyrra­dag, yrðu þau að bíða í viku eft­ir næsta flugi til Bost­on.

Þá var fátt í stöðunni annað en að taka leigu­bíl frá Tromsø til Hels­inki, 1.350 kíló­metra leið, og þre­menn­ing­arn­ir létu slag standa. „Ég tók þau upp í bíl­inn hjá mér fyr­ir til­vilj­un við Kiwi-versl­un­ina við Stakk­evoll­veien og sögðu þau far­ir sín­ar ekki slétt­ar,“ seg­ir Roy Astor Han­son, leigu­bif­reiðar­stjóri hjá Tromsø Taxi, í sam­tali við vef­ritið iTromsø.

Náðu sam­komu­lagi

Vel fór aug­ljós­lega um ferðalang­ana í Benz-bif­reið Han­sons þar sem ekki leið á löngu, eft­ir al­mennt kurt­eis­is­hjal, uns þau spurðu hann hvort hann gæti hugsað sér að keyra þau til Finn­lands.

„Ég kvaðst geta orðið við því og við náðum sam­komu­lagi,“ seg­ir Han­sen við iTromsø í sam­tali þar sem hann og ferðamenn­irn­ir eru stödd í Karesu­ando í Finn­landi á föstu­dag­inn í síðustu viku en akst­ur­inn hófst þá um morg­un­inn og reiknaði Han­sen með að vera á áfangastað klukk­an fjög­ur aðfaranótt laug­ar­dags eft­ir 16 stunda akst­ur, það er klukk­an tvö téða aðfaranótt að ís­lensk­um tíma.

Bandaríska fjölskyldan var til í allar aðrar lausnir en að …
Banda­ríska fjöl­skyld­an var til í all­ar aðrar lausn­ir en að fljúga þvers og kruss um Skandi­nav­íu til að kom­ast til Finn­lands. Leigu­bíll frá Tromsø varð lend­ing­in á meðan eng­in lend­ing fæst í verk­fall SAS. Ljós­mynd/Ú​r einka­safni

MacGraw-fjöl­skyld­an seg­ir það aug­ljós­an kost að sitja í Benz-lúx­us­bif­reið í 16 tíma sam­an­borið við að fljúga um alla Skandi­nav­íu til að kom­ast til Finn­lands. „Við fáum líka að sjá land sem við höf­um aldrei séð áður og við hlökk­um til að aka gegn­um Finn­land og sjá það,“ sagði Ben MacGraw fyr­ir helgi og bætti því við að sagt væri að Finn­land minnti á Qu­e­bec í Kan­ada sem þau fjöl­skyld­an hefðu áður heim­sótt.

542.000 króna leigu­bíll

Sjálf­ur hef­ur Han­sen leigu­bíl­stjóri aldrei fengið ann­an eins túr og neitaði hann staðfast­lega að gefa blaðamanni E24 upp stöðuna á gjald­mæl­in­um við kom­una til Finn­lands. Sam­kvæmt út­reikn­ingi áður en lagt var upp hefði akst­ur­inn átt að kosta 40.000 norsk­ar krón­ur, jafn­v­irði tæp­lega 542.000 ís­lenskra, en Han­sen ját­ar að hafa gefið farþegum sín­um „leng­dera­batt“ eða lang­ferðaafslátt. „Við þurf­um held­ur ekki að greiða þenn­an reikn­ing ein, ferðatrygg­ing­in okk­ar stend­ur und­ir hluta af þessu og út­gerð skemmti­ferðaskips­ins greiðir hluta,“ seg­ir Ben MacGraw, talsmaður Banda­ríkja­mann­anna, að lok­um við E24, reynsl­unni rík­ari eft­ir verk­falls­ferð til Skandi­nav­íu.

Han­sen leigu­bíl­stjóri kveðst hins veg­ar ætla að fá sér stutt­an blund áður en hann ekur aft­ur til baka til Tromsø í Nor­egi, aðra 1.350 kíló­metra. „Ef ein­hver vill fá far með mér til Nor­egs er um að gera að hafa sam­band, ég nenni varla að keyra þetta einn,“ seg­ir hann að skilnaði.

E24

Norwaytoday

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert