542.000 króna leigubíll

Roy Astor Hansen bílstjóri lengst til vinstri en á hægri …
Roy Astor Hansen bílstjóri lengst til vinstri en á hægri kantinum er fjölskyldan frá Boston, Ben MacGraw, Cynthia Clark og Willard MacGraw, sem skirrðust ekki við að taka leigubíl 1.350 kílómetra til að ná flugi, hringvegurinn um Ísland er um það bil nákvæmlega jafn langur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Verkfall starfsfólks skandinavíska flugfélagsins SAS teygir anga sína og áhrif víða og varð til þess að bandarísk fjölskylda í siglingu um norska firði tók leigubíl 1.350 kílómetra, frá Tromsø í Noregi til finnsku höfuðborgarinnar Helsinki, einu færu leiðina til að komast í flug heim til Boston.

„Ég var búinn að vera í stanslausu sambandi við útgerð skemmtiferðaskipsins í tvo daga til að finna leið til að koma okkur til Helsinki, en þaðan bárust fá svör,“ segir Ben MacGraw í samtali við norsku viðskiptafréttasíðuna E24, þá nýkominn úr siglingu með föður sínum, Willard MacGraw og konu föðurins, Cynthiu Clark.

Að lokinni siglingu um annáluðustu firði Noregs, sem þekktir eru að kyrrð sinni og náttúrufegurð, varð dagljóst að fjölskyldan frá Boston var ekki á leiðinni í flug SAS frá Tromsø til Helsinki þar sem lokaleggurinn Helsinki til Boston beið þeirra. Ekkert varð af flugi SAS vegna verkfallsins, ekki fyrsta þrætueplis þessa þó lífseiga flugfélags sem einhvern veginn hafnar alltaf í nýrri öndunarvél skandinavískra ríkisstjórna þegar skórinn kreppir.

Bandaríkjamennirnir íhuguðu ýmsar flugleiðir með mismörgum millilendingum til að komast tímanlega til Finnlands en allt kom fyrir ekki. Kæmust þau ekki til Helsinki á sunnudaginn, í fyrradag, yrðu þau að bíða í viku eftir næsta flugi til Boston.

Þá var fátt í stöðunni annað en að taka leigubíl frá Tromsø til Helsinki, 1.350 kílómetra leið, og þremenningarnir létu slag standa. „Ég tók þau upp í bílinn hjá mér fyrir tilviljun við Kiwi-verslunina við Stakkevollveien og sögðu þau farir sínar ekki sléttar,“ segir Roy Astor Hanson, leigubifreiðarstjóri hjá Tromsø Taxi, í samtali við vefritið iTromsø.

Náðu samkomulagi

Vel fór augljóslega um ferðalangana í Benz-bifreið Hansons þar sem ekki leið á löngu, eftir almennt kurteisishjal, uns þau spurðu hann hvort hann gæti hugsað sér að keyra þau til Finnlands.

„Ég kvaðst geta orðið við því og við náðum samkomulagi,“ segir Hansen við iTromsø í samtali þar sem hann og ferðamennirnir eru stödd í Karesuando í Finnlandi á föstudaginn í síðustu viku en aksturinn hófst þá um morguninn og reiknaði Hansen með að vera á áfangastað klukkan fjögur aðfaranótt laugardags eftir 16 stunda akstur, það er klukkan tvö téða aðfaranótt að íslenskum tíma.

Bandaríska fjölskyldan var til í allar aðrar lausnir en að …
Bandaríska fjölskyldan var til í allar aðrar lausnir en að fljúga þvers og kruss um Skandinavíu til að komast til Finnlands. Leigubíll frá Tromsø varð lendingin á meðan engin lending fæst í verkfall SAS. Ljósmynd/Úr einkasafni

MacGraw-fjölskyldan segir það augljósan kost að sitja í Benz-lúxusbifreið í 16 tíma samanborið við að fljúga um alla Skandinavíu til að komast til Finnlands. „Við fáum líka að sjá land sem við höfum aldrei séð áður og við hlökkum til að aka gegnum Finnland og sjá það,“ sagði Ben MacGraw fyrir helgi og bætti því við að sagt væri að Finnland minnti á Quebec í Kanada sem þau fjölskyldan hefðu áður heimsótt.

542.000 króna leigubíll

Sjálfur hefur Hansen leigubílstjóri aldrei fengið annan eins túr og neitaði hann staðfastlega að gefa blaðamanni E24 upp stöðuna á gjaldmælinum við komuna til Finnlands. Samkvæmt útreikningi áður en lagt var upp hefði aksturinn átt að kosta 40.000 norskar krónur, jafnvirði tæplega 542.000 íslenskra, en Hansen játar að hafa gefið farþegum sínum „lengderabatt“ eða langferðaafslátt. „Við þurfum heldur ekki að greiða þennan reikning ein, ferðatryggingin okkar stendur undir hluta af þessu og útgerð skemmtiferðaskipsins greiðir hluta,“ segir Ben MacGraw, talsmaður Bandaríkjamannanna, að lokum við E24, reynslunni ríkari eftir verkfallsferð til Skandinavíu.

Hansen leigubílstjóri kveðst hins vegar ætla að fá sér stuttan blund áður en hann ekur aftur til baka til Tromsø í Noregi, aðra 1.350 kílómetra. „Ef einhver vill fá far með mér til Noregs er um að gera að hafa samband, ég nenni varla að keyra þetta einn,“ segir hann að skilnaði.

E24

Norwaytoday

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert