Börnin mega sleppa skólabúningnum

Kona kælir sig niður í gosbrunni við Trafalgar-torg.
Kona kælir sig niður í gosbrunni við Trafalgar-torg. AFP/Niklas Halle'n

Hitabylgja gengur nú yfir Bretlandseyjar og hefur Hanna K. Ólafsdóttir, sem starfar sem læknir í London, ekki farið varhluta af henni.

Hanna fór ekki mikið út í gær, enda vinnur hún mikið heima hjá sér, en fór út í garð og fann rækilega fyrir hitanum, sem fór í 37 til 38 stig. Almennt segir hún best í svona hita að standa ekki lengi í sólinni heldur vera í skjóli eins mikið og hægt er.

Lítið um loftkælingu

Hún segir innviði skorta hjá Bretum til að takast á við svona mikinn hita því engar loftkælingar séu í húsum, auk þess sem þær fyrirfinnist aðeins í sumum lestum.

Hún á þrjú börn á grunnskólaaldri og verður hitinn oft mikill inni í kennslustofunum þegar hitastigið verður eins hátt og í dag vegna engrar loftkælingar. Börnin hennar máttu sleppa því að klæðast skólabúningnum í dag vegna hitans og vera í staðinn í stuttbuxum og bol. Var það að vonum kærkomið.

Konur kæla sig í gosbrunni við Trafalgar-torg í London í …
Konur kæla sig í gosbrunni við Trafalgar-torg í London í dag. . AFP/Niklas Halle´n

Frosið vatn í skólann

Tæp sextán ár eru liðin síðan Hanna flutti til Englands. Spurð hvort hún muni eftir öðrum eins hita í London segir hún einu sinni til tvisvar á ári koma dagar þar sem hitinn fer í 35 til 36 stig og er hún því vön ýmsu í þessum efnum. 

Bretar hafa m.a. verið varaðir við því að vera mikið úti á meðan á hitabylgjunni stendur, auk þess sem þeir hafa verið hvattir til að drekka mikið vatn. Beðin um að nefna hvað hún gerir til að takast á við hitann kveðst Hanna alltaf reyna að vera með kalt vatn í ísskápnum. Krakkarnir taka jafnframt með sér flösku í skólann með frosnu vatni til að eiga kalt vatn yfir daginn. Vaðlaug með ísköldu vatni er síðan tilbúin í garðinum til að krakkarnir geti kælt sig niður í hitanum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert