Albanía og Norður-Makedónía hafa nú formlega hafið viðræður um aðild að Evrópusambandinu.
Enn eru einhver ár þangað til að löndin geta orðið aðildarríki í sambandinu. Næsta skref verður að skipuleggja með hvaða hætti samtalið verður á milli ríkisstjórna landanna og Evrópusambandsins.
Á laugardaginn tilkynnti Dimitar Kovacevski, forsætisráðherra Norður-Makedóníu, að stjórnvöld í höfuðborginni Skopje hefðu náð samkomulagi við nágranna sína í Búlgaríu og þannig bundið enda á áralanga deilu. Með samkomulaginu væri loks hægt að hefja viðræður um inngöngu í Evrópusambandið.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, óskaði Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, og Kovacevski til hamingju með áfangann.
„Þetta er það sem þjóðir ykkar hafa beðið svo lengi eftir og hafa unnið hörðum höndum að. Þetta er það sem þau eiga skilið,“ sagði von der Leyen.
Edi Rama segir að umsóknarferlið geti tekið langan tíma en Albanía sótti fyrst um aðild að Evrópusambandinu árið 2009.