Hitamet var slegið í Bretlandi í morgun en hitinn fór í stutta stund upp í 39,1 gráðu við Charlwood í Surrey, suðvestur af London. Frá þessu greinir breska veðurstofan.
Eldra metið var skráð í Cambridge í austurhluta Englands árið 2019 en þá náði hitinn 38,7 gráðum.
Viðvörun vegna hitans hefur verið gefin út í Bretlandi en veðurspár gera ráð fyrir að hitinn þar í landi gæti náð 42 gráðum í dag.
Hitabylgja hefur gengið yfir Evrópu undanfarna daga og stefnir hún nú í norður.