Breska veðurstofan segir hitann hafa farið upp í 40,2 gráður á Heathrow-flugvelli í vesturhluta Lundúna fyrir hádegi í dag. Það er þá í fyrsta sinn sem hitinn fer yfir 40 gráðurnar í Bretlandi.
Fyrr í dag var greint frá því að hitamet hefði verið slegið í Bretlandi þegar hitinn fór upp í 39,1 gráðu við Charlwood í Surrey, suðvestur af London. Metið stóð því ekki lengi.
Eldra metið var skráð í Cambridge í austurhluta Englands árið 2019 en þá náði hitinn 38,7 gráðum.
Sérfræðingar segja loftslagsbreytingum um að kenna og vara við því að enn verri bylgjur séu í vændum á næstu árum.
„Loftslagsbreytingar, knúnar áfram af gróðurhúsalofttegundum, hafa gert þetta háa hitastig mögulegt,“ sagði Stephen Belcher, forstjóri vísinda- og tæknideildar bresku veðurstofunnar.
„Þessar öfgar verða sífellt meiri,“ bætti hann við.
Þetta háa hitastig í Bretlandi hefur kallað á áður óþekktar rauðar veðurviðvaranir í stórum hluta Englands. Járnbrautalínum og sumum skólum á svæðunum var lokað í varúðarskyni.
Samgönguráðherrann sagði stóran hluta innviða Bretlands ekki byggða fyrir þetta hitastig.
Svæðisbundin hitamet voru einnig slegin á hinum ýmsu stöðum í Frakklandi í gær. Flest þeirra voru meðfram vesturhluta Atlantshafsstrandarinnar, þar sem hitinn fór einnig yfir 40 gráður.
Ekki er þó útlit fyrir að hitamet Frakklands frá árinu 2019, 46 gráður, verði slegið.
Hitabylgjan á meginlandi Evrópu undanfarnar vikur hefur verið valdur að mannskæðum skógareldum í Frakklandi, Grikklandi, Portúgal og Spáni og eyðilagt gríðarstór landsvæði.
Slökkviliðsmenn í suðvesturhluta Frakklands berjast enn við tvo stóra elda sem hafa valdið mikilli eyðileggingu og neytt tugþúsundir manna til að yfirgefa heimili sín.