Hitinn yfir 40 gráður í fyrsta sinn

„Rosalegur hiti, skipuleggið ferðalag ykkar, hafið vatn meðferðis,“ stendur á …
„Rosalegur hiti, skipuleggið ferðalag ykkar, hafið vatn meðferðis,“ stendur á þesu skilti á þjóðvegi norður af London. AFP

Breska veðurstofan segir hitann hafa farið upp í 40,2 gráður á Heathrow-flugvelli í vesturhluta Lundúna fyrir hádegi í dag. Það er þá í fyrsta sinn sem hitinn fer yfir 40 gráðurnar í Bretlandi.

Fyrr í dag var greint frá því að hitamet hefði verið slegið í Bretlandi þegar hitinn fór upp í 39,1 gráðu við Charlwood í Surrey, suðvestur af London. Metið stóð því ekki lengi.

Eldra metið var skráð í Cambridge í aust­ur­hluta Eng­lands árið 2019 en þá náði hit­inn 38,7 gráðum.

Loftslagsbreytingar orsakavaldurinn

Sérfræðingar segja loftslagsbreytingum um að kenna og vara við því að enn verri bylgjur séu í vændum á næstu árum.

„Loftslagsbreytingar, knúnar áfram af gróðurhúsalofttegundum, hafa gert þetta háa hitastig mögulegt,“ sagði Stephen Belcher, forstjóri vísinda- og tæknideildar bresku veðurstofunnar.

„Þessar öfgar verða sífellt meiri,“ bætti hann við.

Strandaglópar á járnbrautarstöð í Bretlandi eftir að lestarferðum var víða …
Strandaglópar á járnbrautarstöð í Bretlandi eftir að lestarferðum var víða aflýst vegna hitans. AFP

Þetta háa hitastig í Bretlandi hefur kallað á áður óþekktar rauðar veðurviðvaranir í stórum hluta Englands. Járnbrautalínum og sumum skólum á svæðunum var lokað í varúðarskyni.

Samgönguráðherrann sagði stóran hluta innviða Bretlands ekki byggða fyrir þetta hitastig.

Berjast enn við skógarelda

Svæðisbundin hitamet voru einnig slegin á hinum ýmsu stöðum í Frakklandi í gær. Flest þeirra voru meðfram vesturhluta Atlantshafsstrandarinnar, þar sem hitinn fór einnig yfir 40 gráður.

Ekki er þó útlit fyrir að hitamet Frakklands frá árinu 2019, 46 gráður, verði slegið.

Barist við skógarelda í Frakklandi.
Barist við skógarelda í Frakklandi. AFP

Hitabylgjan á meginlandi Evrópu undanfarnar vikur hefur verið valdur að mannskæðum skógareldum í Frakklandi, Grikklandi, Portúgal og Spáni og eyðilagt gríðarstór landsvæði.

Slökkviliðsmenn í suðvesturhluta Frakklands berjast enn við tvo stóra elda sem hafa valdið mikilli eyðileggingu og neytt tugþúsundir manna til að yfirgefa heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert