Íbúar í skerjagarðsbænum Kotka í suðausturhluta Finnlands vöknuðu í morgun við heldur óvenjulega sjón, en í garði einum í bænum spókaði rostungur sig í sólinni. Hafði rostungurinn synt um 150 metra upp litla á og svo skriðið upp frá ströndinni inn í bakgarðinn.
Lögregla og dýralæknar voru kölluð á staðinn, enda geta rostungar verið hættulegir ef ekki er farið gætilega. Upphaflega var horft til þess að svæfa rostunginn og flytja hann í dýragarðinn í höfuðborginni Helsinki, en að lokum var ákveðið að falla frá þeirri hugmynd.
Í umfjöllun finnska ríkisútvarpsins, þar sem jafnframt er hægt að sjá myndir af rostungnum er haft eftir Ninu Trontti, yfirdýralækni á svæðinu, að besti kosturinn hafi verið að leyfa dýrinu að hvíla sig og leyfa því svo að halda aftur á haf út. Segir hún að rostungar sofi stóran hluta dagsins og segir hún ólíklegt að dýrið leiti lengra upp á land. Þá segir Trontti að hún telji rostunginn hafa rétt til þess að upplifa ævintýri.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi rostungur vekur athygli, en fyrir nokkrum dögum er talið að sama dýr hafi verið á ferðinni í Fredrikshamn á Álandseyjum.
Rostungar hafa undanfarið vakið athygli þegar þeir hafa leitað í mannabyggðir, bæði hér á landi sem og í Noregi og á Bretlandseyjum. Fyrir tæplega viku var greint frá henni Freyju sem birtist í Tønsberg í Noregi, en hún hafði einnig komið við á fleiri stöðum þar í landi áður. Rostungurinn Steini var einnig á ferð í júní í Skalderviken í suðvesturhluta Svíþjóðar fyrr á þessu ári.
Í fyrra kom svo rostungurinn Valli við á Höfn í Hornafirði í tvígang, en hann hafði áður sést á Írlandi, þar sem hann er reyndar sagður hafa valdið milljóna tjóni eftir að hafa sökkt tveimur bátum.
Í fyrravor mætti einnig gríðarmikill rostungur í Hammerfest í Troms og Finnmark, nyrstu vé Noregs. Við það tilefni sagði Audun Rikardsen líffræðingur að rostungar væru alls ekki hættulaus dýr. „Rostungurinn er ef til vill háskalegasta heimskautaskepnan sem þú getur rekist á í vatni,“ sagði Rikardsen, „hann er þó mun klunnalegri á landi. Hann hleypur ekki á eftir neinum en fólk ætti að halda góðri fjarlægð og sýna virðingu.“
Bætti hann við að fari dýrin að hreyfa sig eða gefa frá sér hljóð sé tímabært að færa sig fjær.