Tortímandinn frá Srí Lanka

Mynd sem tekin var af Gotabaya Rajapaksa árið 2019.
Mynd sem tekin var af Gotabaya Rajapaksa árið 2019. AFP

Hann er frá einni voldugustu fjölskyldu Srí Lanka en getur nú ekki stigið niður fæti þar án þess að óttast um líf sitt. Þegar hann flúði heimalandið var hann einnig hrakinn frá næsta ríki sem hann leitaði skjóls í.

Hann hefur unnið sér til saka að bæta gráu ofan á svart í hræðilegu efnahagsástandi Srí Lanka en bróðir hans lagði grunninn að falli efnahagsins. Maðurinn sem um ræðir er kallaður tortímandinn fyrir miskunnarlausar herferðir sínar gegn uppreisnarmönnum. Hann heitir Gotabaya Rajapaksa og er fyrrverandi forseti Srí Lanka. Á morgun verður arftaki hans kjörinn. Sá verður líklega maðurinn sem starfaði þétt við hlið Rajapaksa, forsætisráðherra landsins.

Rajapaksa sagði af sér í síðustu viku kjölfar mótmæla sem stóðu mánuðum saman vegna erfiðrar fjárhagslegrar stöðu landsins. Srí Lanka er nú statt í erfiðustu efnahagskreppu landsins frá upphafi. Stjórnmálakerfið þar er flókið og þaðan hafa borist fréttir af spillingu.

Ógæfa Srí Lanka í efnahagsmálum fór af stað í kórónuveirufaraldrinum en óstjórn Rajapaksa bætti gráu ofan á svart, að því er fram kemur í frétt AFP.

Mótmælendur brutust inn á skrifstofur forsætisráðherrans 13. júlí síðastliðinn.
Mótmælendur brutust inn á skrifstofur forsætisráðherrans 13. júlí síðastliðinn. AFP

Sýndi enga miskunn

Landinu hefur reynst ómögulegt að fjármagna nauðsynlegasta innflutning síðan seint á síðasta ári og hefur ríkisstjórnin síðan þá ekki náð að standa skil á greiðslum af skuldum.

Óánægja meðal íbúa hefur vaxið mánuðum saman vegna alvarlegs matar- og olíuskorts, metverðbólgu og langvarandi rafmagnsleysis.

Jafnvel nánustu samstarfsmenn Rajapaksa yfirgáfu hann og þegar mómælendur æddu inn á heimili hans í höfuðborginni Colombo í þessum mánuði neyddist Rajapaksa til þess að flýja og leita skjóls í herstöð. Stuttu síðar flúði hann til Maldíveyja en komu hans þar var einnig mótmælt. Þá flaug hann til Singapúr og dvelur hann þar enn.

Rajapaksa var kallaður „Tortímandinn“ fyrir að hafa ekki sýnt neina miskunn þegar hann fyrirskipaði aftökur Tamíl-uppreisnarmanna í landinu þegar hann var varnarmálaráðherra landsins í forsetatíð eldri bróður síns Mahinda á árunum 2005 til 2015.

Rajapaksa var dýrkaður og dáður af Sinhala búddistameirihluta þingsins en hataður af Tamílum og múslimum sem litu á forsetann sem stríðsglæpamann, rasista og mann sem kúgaði minnihlutahópa.

Frá mótmælum í Srí Lanka.
Frá mótmælum í Srí Lanka. AFP

Þrír hafa boðið sig fram

Þegar verðbólgan í landinu fór yfir 50% og fjórir af hverjum fimm neyddust til þess að neita sér um mat vegna skorts á honum sameinaðist annars sundurleit þjóð í andstöðu sinni gegn Rajapaksa.

Rajapaksa hætti formlega 14. júlí síðastliðinn eftir tveggja ára og átta mánaða forsetatíð. Kjörtímabilið í Srí Lanka er fimm ár svo hann átti tæpan helming eftir af því þegar hann hrökklaðist frá völdum.

Ranil Wickremesinghe forsætisráðherra var sjálfkrafa hækkaður um tign við afsögn Rajapaksa og tók við stjórnartaumum landsins, eins og stjórnarskrá þess gerir ráð fyrir. Wickremesinghe þjónar sem forseti landsins þar til á morgun, miðvikudag, þegar þingið – sem samanstendur af 225 þingmönnum – kýs leiðtoga til þess að leiða landið út kjörtímabilið.

Þrír hafa boðið sig fram og munu þingmennirnir raða frambjóðendum á kjörseðli í leynilegri kosningu. Frambjóðandi þarf meira en helming atkvæða til þess að ná kjöri. Ef enginn nær slíkum árangri í fyrstu atrennu þá fellur sá með fæstu atkvæðin úr keppni og er atkvæðum hans dreift eftir því hvern hans kjósendur völdu sem annan kost.

Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra Srí Lanka, situr nú á forsetastóli og …
Ranil Wickremesinghe, forsætisráðherra Srí Lanka, situr nú á forsetastóli og mun líklega gera það áfram, þó það sé ekki alveg víst. AFP

480 milljónir fyrir atkvæði

Í fyrri kosningum hafa komið fram ásakanir um spillingu og mútur sem boðnar hafa verið í skiptum fyrir atkvæði. Í stjórnarkreppunni í landinu árið 2018 sögðu sumir þingmenn að þeim hefðu verið boðnar allt að 3,5 milljónir bandaríkjadala í reiðufé, eða það sem nemur um 480 milljónum íslenskra króna, og íbúðir erlendis í skiptum fyrir stuðning.

Wickremeshinge hefur boðið sig fram til forseta og virðist hann líklegastur til þess að sigra. Hann hefur tryggt sér stuðning frá forystu flokks forsetans fyrrverandi sem er enn stærsti flokkurinn á þingi með 100 þingsæti. Harðlínu afstaða hans gegn mótmælendum hefur fallið í kramið hjá þingmönnum sem hafa þurft að þola ofbeldi af þeirra hálfu.

Fyrrverandi fjölmiðlaráðherrann Dullas Alahapperuma hefur einnig boðið sig fram og þykir verðugur andstæðingur forsætisráðherrans.

Þá hefur Anura Dissanayake, leiðtogi vinstri flokks á þingi, boðið sig fram. Hann þykir ekki líklegur sigurvegari enda er hann einungis með þrjá þingmenn á bakvið sig.

Mahinda Rajapaksa er bróðir forsetans sem nú hefur stigið frá …
Mahinda Rajapaksa er bróðir forsetans sem nú hefur stigið frá völdum. Fjölskylda þeirra er valdamikil í Srí Lanka. AFP

Bræður við stjórnvölinn

Það er ekki langt liðið síðan efnahagur Srí Lanka var í blóma en núna er hann í molum og landið hefur safnað erlendum skuldum sem jafngilda 51 milljarði bandaríkjadala.

Rajapaksa-fjölskyldan, fjölskylda forsetans fyrrverandi, hefur gert sitt til þess að bæta í þessar skuldir í gegnum árin. Hún hefur verið valdamikil í landinu um hríð en fjölskyldan efnaðist á hrísgrjóna- og kókoshneturækt. Það ætti ekki að koma á óvart að fólk úr svo vel settri fjölskyldu hafi leitað í stjórnmálin, miðað við það sem Razeen Sally, prófessor við Singapúrháskóla, sagði í samtali við Wall Street Journal.

„Þú getur ekki sigrað [í stjórnmálum] ef þú ert ekki úr þekktri fjölskyldu,“ sagði hann.

Eins og áður segir komst Mahinda, bróðir Gotabaya, til valda í Srí Lanka árið 2005. Hann sat á forsetastóli til ársins 2015 og jukust völd fjölskyldunnar mjög á þessum tíma. Í forsetatíð Mahinda fór fólk úr fjölskyldunni í auknum mæli að taka við mikilvægum stöðum í Srí Lanka, þar á meðal Gotabaya sem var útnefndur varnarmálaráðherra.

Mikill fjöldi komst út úr fátækt og efnahagurinn blómstraði

Srí Lanka sótti í sig veðrið á þessum tíma og óx efnahagurinn ört. Sá vöxtur var drifinn áfram af erlendum skuldum. Lengi vel gekk þessi vöxtur ágætlega og urðu margir aðdáendur ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún batt árið 2009 enda á borgarastyrjöld sem hófst árið 1983.

Verg landsframleiðsla miðað við höfðatölu meira en tvöfaldaðist á árunum 2006 til 2014 og var meira en 1,6 milljónum manna bjargað úr fátækt. Á svipuðum tíma, frá árinu 2006 til 2012, þrefölduðust erlendar skuldir landsins. Með hverju árinu sem leið gerðu stjórnvöld fleiri mistök.

Þar má nefna að Gotabaya lofaði skattaniðurskurði þegar hann var kosinn. Með skattalækkunum dróust tekjur stjórnvalda saman um 25%. Svo fór kórónuveirufaraldurinn af stað og gerði nánast út af við ferðamannastrauminn sem Srí Lanka hafði treyst á til þess að greiða til baka erlendar skuldir sínar. Í ár hófst svo stríð Rússa í Úkraínu en Rússar höfðu verið í miklum meirihluta þeirra sem heimsóttu landið og Úkraínumenn einnig verið algengir gestir.

Í aprílmánuði á síðasta ári gerði ríkisstjórn landsins önnur mistök þegar hún bannaði notkun á innfluttum áburði til þess að draga úr notkun á þeirri takmörkuðu auðlind sem gjaldeyrir var orðinn í landinu. Þetta ráð varð landinu ekki til framdráttar enda getur ekkert land staðið undir spurn eftir mat með fyllilega lífrænni framleiðslu. Bændur þurftu að draga úr framleiðslu og fæðukeðjan í Srí Lanka beið hnekki. Srí Lanka þurfti að byrja að flytja inn hrísgrjón og annan mat sem varð til þess að verð á mat hækkaði. Þó svo að stjórnvöld hafi dregið bannið til baka í nóvember síðastliðnum þá var skaðinn skeður.

Gátu ekki einu sinni greitt vexti

Landið var farið að eyða meiru en það gat búið til og flytja inn meira en það flutti út. Skuldir landsins urðu með þessu svo háar að landið gat ekki einu sinni greitt vexti af erlendum lánum sínum.

Srí Lanka hefur því séð bæði mikinn uppgang og hátt fall á stuttum tíma. Hver framtíð þessarar ferðamannaparadísar verður er ekki gott að segja. Þó er víst að nýr leiðtogi verður valinn á morgun, leiðtogi sem á mikið verk fyrir höndum: Að byggja heilt ríki upp eftir að það hefur verið rifið niður nánast algjörlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert