Loftslagsbreytingar eru veruleg ógn við getu ísbjarna til að veiða sér til matar. Norðurskautssvæðið hlýnar um það bil þrisvar sinnum hraðar en að meðaltali í heiminum sem þýðir að það er minni hafís sem dýrin geta treyst á til að veiða sér til matar.
Loftslagsbreytingar eru þó ekki það eina sem birnirnir verða að óttast og hafa vísindamenn varað við því að matarsóun manna sé hættuleg fyrir dýrin.
Fyrir þremur árum síðan var greint frá því þegar tugir ísbjarna fóru inn í afskekkt rússneskt þorp og átu þar rusl á sorphaugum.
„Við höfum séð þessa hægu og stöðugu aukningu á neikvæðum samskiptum ísbjarna og manna, aðallega knúin áfram af tapi hafíss sem ýtir fleiri björnum á land í lengri tíma og á fleiri stöðum,“ sagði Geoff York, yfirmaður náttúruverndar hjá Polar Bears International.
Í nýrri rannsókn skoðuðu vísindamenn hvernig matvælum sem hefur verið hent, sérstaklega á ruslahaugum, draga ísbirni í átt að samfélögum manna og þá í átt að hættu.
York, sem var meðhöfundur skýrslunnar sem birtist í náttúruverndartímaritinu Oryx, sagði að ruslahaugar og matur mannanna væri mikið vandamál fyrir ísbirni.
„Það er líklegt að það versni ef ekki er tekið á því,” bætti hann við.
Í skýrslunni eru tekin saman nokkur dæmi á undanförnum árum þar sem einn eða tveir birnir hafa nálgast þorp eða tjaldbúðir á norðurslóðum, ráðist á heimamenn og verið skotnir.