Hitamet hefur verið slegið í Danmörku, en hitinn fór í 35,6 stig í Borris á Jótlandi í dag og er það hæsta hitastig sem mælst hefur í júlímánuði. Fyrra metið fyrir júlí, sem voru 35,3 gráður, mældist árið 1941.
Danska veðurstofan hefur spáð því að nokkur dönsk met verði slegin í dag. Hiti í Danmörku hefur hæst farið í 36,4 gráður og mældist í ágúst 1975. Samkvæmt veðurstofunni eru líkur á því að hitinn mælist enn hærra í dag.
Þá hefur sænska veðurstofan gefið út hitaviðvörun fyrir daginn í dag og á morgun sem nær yfir stóran hluta Svíþjóðar. Búist er við að hitinn nái allt að 35 stigum.