Umhverfissinnar stöðvuðu umferð á fjölförnustu hraðbraut Bretlands sem liggur í kringum London í dag til að mótmæla loftslagsbreytingum og biðla til yfirvalda að minnka útblástur.
Mótmælin koma í kjölfar hitabylgju sem hefur gengið yfir Bretland síðastliðna viku. Fjöldinn allur af hitametum í Bretlandi voru slegin á síðustu dögum.
Meðlimir aðgerðarhópsins Just Stop Oil stóðu fyrir mótmælunum og stöðvuðu umferðina sem varð til þess að margra kílómetra halarófa myndaðist á hraðbrautinni. Lögreglan þurfti að stíga inn í til að stöðva mótmælin og koma umferðinni aftur af stað.
Hitinn fór yfir 40 gráður í fyrsta skiptið í suðurhluta Bretlands í gær. Hitinn varð til þess að eldar kviknuðu á ýmsum stöðum en sextán slökkviliðsmenn slösuðust í London í gær í baráttu við gróðurelda.
Just Stop Oil sagði í tilkynningu að félagar hópsins hörmuðu óþægindi gagnvart almenningi en ítrekuðu að þessi mótmæli væru aðeins byrjunin og að fólk mætti búast við fleiri aðgerðum í vikunni.