Aðeins viku eftir að fyrstu myndirnar voru sýndar úr James Webb-geimsjónaukanum gæti hann hafa fundið stjörnuþoku sem var til fyrir 13,5 milljörðum ára.
Stjörnuþokan er þekkt sem GLASS-z13 og varð til 300 milljónum ára eftir Miklahvell. 100 milljónum ára fyrr en nokkuð sem hefur áður verið greint, að sögn Rohan Naidu hjá stjarneðlisfræðistofnun Harvard háskóla.
„Við erum hugsanlega að horfa á fjarlægasta stjörnuljósið sem nokkur hefur nokkurn tíma séð,“ sagði hann en stjörnuþokan sást ekki á myndunum sem birtar voru í síðustu viku.
Segir í frétt AFP að því fjarlægari sem hlutir eru frá jörðinni því lengri tíma tekur það fyrir ljós þeirra að ná til jarðar. Þannig er það að sjá eitthvað í þessari fjarlægð eins og að horfa langt aftur í fortíðina.
Myndin af stjörnuþokunni var tekin á innrauða myndavél og sást stjörnuþokan þegar hún var færð yfir á sýnilegt litróf. Stjörnuþokan birtist sem rauður blettur með hvítu í miðjunni.
Webb-geimsjónaukanum var skotið á loft frá Frönsku-Gíneu í desember í fyrra. Hann er á sporbaug um sólu í 1,6 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðu.