Heppinn einstaklingur, með allar tölur réttar, vann stærsta vinning Eurojackpot frá upphafi í dag en upphæðin nemur alls 16.683.600.000 krónum.
Miðinn var keyptur í Danmörku og þar sem enginn annar var með allar tölur réttar, þarf sá heppni ekki að deila vinningsfénu, að því er fram kemur í tilkynningu.
Átta einstaklingar komust nálægt því að fá hlutdeild í fyrsta vinningi en þeir þurfa að sætta sig við að deila á milli sín öðrum vinningi. Fær hver og einn því sem nemur tæpum 415 milljónum króna á mann. Voru sex af þeim vinningsmiðum keyptir í Þýskalandi, einn í Noregi og einn í Ungverjalandi.
Þá skipta 18 á milli sín þriðja vinningi og gerir það 17,8 milljónir á haus.
Enginn vinningsmiði var keyptur á Íslandi í þetta skiptið.