Fá 8% launahækkun og hætta við verkfall

Meira en 75% starfsmanna British Airways studdu samninginn.
Meira en 75% starfsmanna British Airways studdu samninginn. AFP/Paul Hackett

Starfsfólk breska flugfélagsins British Airways samþykkti í dag samning um 8% launahækkun og hefur því verið hætt við fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir.

Segir í frétt BBC að meira en 75% starfsfólks hafi stutt launasamninginn. Þá fá starfsmenn félagsins bónus og hærri laun fyrir óreglulegar vaktir. Talsmaður British Airways sagði að félagið væri „ánægt með þessar jákvæðu fréttir“.

Alls hugðust 700 starfsmenn, aðallega á innritunarborðum British Airways á Heathrow-flugvelli í London, leggja niður störf í júlí, þar sem launaskerðing sem þeir þurftu að þola í kórónuveirufaraldrinum hefði ekki gengið til baka að fullu.

„Enginn vildi sumarverkfall á Heathrow, en félagsmenn okkar þurftu að berjast fyrir því sem var rétt,“ sagði Nadine Houghton, formaður stéttarfélagsins GMB.

Þá hefur starfsfólk sem afgreiðir eldsneyti á Heathrow-flugvelli einnig samþykkt kjarasamning. Samningurinn felur í sér að starfsmenn Aviation Fuel Services fá 12,5% launahækkun, bónus og hækkun launa í helgarvinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert