„Grunurinn sem nú fellur á Andersen sprettur af rannsókn sem hann sætti og er liður í heildarrannsókn málsins. Sú rannsókn stendur enn og markmið okkar er að málið sé upplýst svo gerlega sem verða má.“ Þetta segir Andreas Schei, saksóknari við héraðssaksóknaraembættið í Ósló, í samtali við Morgunblaðið um Jan Helge Andersen, annan hinna dæmdu í Baneheia-málinu, einu óhugnanlegasta sakamáli Noregs síðustu ár, sem mbl.is fjallaði ítarlega um í fyrra. Er Andersen nú grunaður á ný, eftir að hafa hlotið 19 ára dóm í málinu um aldamótin. Baneheia-málið snýst um örlög vinkvennanna Lenu Sløgedal Paulsen, 10 ára, og Stine Sofie Sørstrønen, 8 ára, föstudaginn 19. maí árið 2000.
Vinkonurnar ungu höfðu fengið sér sundsprett í vatni í Baneheia, vinsælu útivistarsvæði í Kristiansand í Suður-Noregi, en áttu ekki afturkvæmt þaðan. Fundust lík þeirra að kvöldi 21. maí og hafði stúlkunum verið nauðgað og þær svo stungnar til bana, áður en andvana líkamar þeirra voru dysjaðir í gjótu með hendur bundnar aftur fyrir bak. Vakti líkfundurinn hvort tveggja ótta og óbeit meðal íbúa Kristiansand og Noregs alls og hlaut rannsókn málsins fádæma athygli norskra fjölmiðla.
Innan skamms féll grunur á téðan Andersen og Viggo nokkurn Kristiansen. Erfðaefni tveggja manna fannst á vettvangi og voru sýnin rannsökuð á réttarmeinarannsóknarstofunni í Santiago de Compostela á Norðvestur-Spáni, en hún hefur á að skipa sérfræðingum sem teljast með þeim fremstu í heiminum á sviði erfðarannsókna í sakamálum.
Eitt hár sem fannst á vettvangi var tengt við Andersen með fullri DNA-svörun. Annað sýni skilaði ekki niðurstöðu, annarri en þeirri að það hefði getað komið frá Kristiansen, en það hefði líka getað komið frá 54,6 prósentum allra norskra karlmanna. Andersen tilheyrði hins vegar ekki þeim 54 prósentum. Ókunna erfðaefnið gat ekki verið hans.
Hlaut Andersen 19 ára dóm fyrir víg Sørstrønen en ekki tókst að tengja hann við vinkonu hennar. Kristiansen, sem Andersen fullyrti að hefði lagt á ráðin um illvirkið og sannfært Andersen að drýgja með sér, hlaut 21 árs varðveisludóm (n. forvaring) en fékk mál sitt endurupptekið í febrúar í fyrra eftir sjö umsóknir til endurupptökunefndar í sakamálum og er endurupptökumálið enn til meðferðar í dómskerfinu er þetta er ritað. Var endurupptaka máls Kristiansens tilefni umfjöllunar mbl.is í fyrra.
Sem fyrr segir er Andersen grunaður á ný, nú fyrir að hafa einnig misgert við hina stúlkuna, Paulsen, og byggist grunurinn á rannsókn lögreglu, sem framkvæmd var án vitundar hans í kjölfar endurupptöku máls Kristiansens. Herma heimildir norskra fjölmiðla að nýjar upplýsingar í málinu tengist gögnum er fundust í fartölvu Andersens. Lögregla og saksóknarar verjast þó allra frétta um nýju gögnin, enn sem komið er.
„Rannsóknin núna getur auðvitað haft áhrif á réttarstöðu Kristiansens í málinu, en ég tek fram að saksóknaraembættið hefur enn ekki tekið neina afstöðu til þess hvort ákært verði,“ segir Schei enn fremur.
Áður en hægt er að ákæra Andersen þarf endurupptökunefndin þó að úrskurða að ákæruatriði, sem hann var sýknaður af árið 2002, verði tekið upp á nýjan leik.
„Sé saksóknari þeirrar skoðunar að ný rannsókn málsins hafi getið af sér sönnunargögn, sem hafa úrslitaþýðingu um sekt Andersens í þeim hluta málsins sem hann var sýknaður af árið 2000, getur saksóknari krafist endurupptöku og nýrrar málsmeðferðar, hvað þann hluta málsins snertir,“ segir John Christian Elden, lögmaður í Ósló, í samtali við Morgunblaðið.
„Verði þetta raunin getur hann mögulega hlotið tveggja ára dóm, það er að segja mismuninn á þeim 19 árum sem hann áður hlaut og 21 árs dómi, sem er þyngsta fangelsisrefsing sem norsk lög leyfa,“ segir Elden lögmaður enn fremur. Hann þekkir vel til málsins en Svein Holden, verjandi Andersens, vildi ekki tjá sig um nýju grunsemdirnar við Morgunblaðið.
Endurupptökumál Kristiansens er sem fyrr segir enn til meðferðar hjá norskum dómstólum en hann afplánaði 21 ár fyrir víg stúlknanna ungu í Kristiansand, hálfa ævi sína. Nú þykir hins vegar vafi leika á sekt Kristiansens og þótti reyndar frá upphafi, meðal annars á grundvelli gagna frá símafyrirtækinu Telenor, um staðsetningu farsíma hans þegar ódæðið var framið.
„Verði Kristiansen sýknaður af báðum manndrápunum má hann eiga von á skaðabótum sem verða líkast til einhvers staðar í nágrenni við 20 milljónir króna [275 milljónir íslenskra króna] eftir að hafa setið hálfa ævina bak við lás og slá,“ segir Elden lögmaður að lokum.