Taívan hóf stærstu árlegu heræfingar sínar í dag með skotgrafahernaði og Stinger-eldflaugum. Innrás Rússa í Úkraínu hefur aukið óttann um að kínversk stjórnvöld muni reyna að ná yfirráðum yfir Taívan með svipuðum hætti.
Æfingarnar, sem nefnast Han Kuang, hafa verið litaðar af stríðinu í Úkraínu og er líkt eftir „öllum mögulegum aðgerðum“ sem Kína gæti gripið til, til að ráðast inn í Taívan, að sögn varnarmálaráðuneytisins.
Á æfingu í dag hlupu varaliðar vopnaðir vélbyssum í skotgrafir undir brú áður en þeir komust í skotstöðu. Æfingin miðar að því að koma í veg fyrir að óvinir komist að höfuðborginni Taípei.
Eldflaugum af gerðinni Stinger var einnig dreift í nokkrum háhýsum á svæðinu, að sögn Su Tzu-yun, hersérfræðings. Þá var íbúum í Taípei gert að leita skjóls í 30 mínútur vegna borgaralegrar loftárásaræfingar.