Ný „lúxusferð“ Disney, sem farin verður með vél Icelandair í kringum heiminn með viðkomu í öllum Disney-görðum heimsins, hefur hlotið gagnrýni fyrir gríðarlega koltvísýringslosun.
Hver farþegi í ferðinni, sem kostar 110.000 dollara, losar um 6,2 tonn af koltvísýringi. Kemur fram í frétt Guardian að það sé 20 sinnum meira en manneskja í lágtekjulandi losar á einu ári.
Ferðin, sem er nú þegar uppbókuð, tekur 24 daga og eru farþegarnir 75 talsins. Flogið verður til þriggja heimsálfa með sérstakri Boeing 757-vél á vegum íslenska flugfélagsins Icelandair.
Greining frá samtökunum Transport & Environment leiddi í ljós að flugvélaeldsneyti sem þarf að brenna til að knýja flugvélina þessa 31.500 km sem ferðin fer myndi samtals losa 462 tonn af koltvísýringi eða 6,2 tonn á hvern farþega.
Árið 2019 var meðaltal koltvísýringslosunar á mann á ári í lágtekjulandi 0,3 tonn, samkvæmt gögnum sem Alþjóðabankinn hefur safnað. Á heimsvísu var talan 4,5 tonn á mann.
Talsmaður Disney sagði fyrirtækið hafa skuldbundið sig til að vernda jörðina og að það myndi fylgjast með losun ferðarinnar og koma jafnvægi á hana með fjárfestingum í loftslagslausnum sem myndu leiða til minni losunar.
Loftslagsaðgerðasinnar hafa bent á að ferðin varpi ljósi á hversu hátt hlutfall koltvísýringslosunar kemur frá efnameiri einstaklingum. Ein rannsókn benti á að það 1% flugfarþega, sem flýgur mest, bæri ábyrgð á helmingi losunar koltvísýrings í flugiðnaðinum árið 2018.