Atvik á veitingastað í París er nú til rannsóknar hjá lögreglunni eftir að myndskeið komst í dreifingu á samfélagsmiðlum af dyraverði vísa þremur konum, sem allar eru dökkar á hörund, frá staðnum.
Talsmenn veitingastaðarins hafa vísað ásökunum um kynþáttafordóma á bug og hefur dyraverðinum verið sagt upp störfum. Hann telur sig þó hafa verið að vinna eftir leiðbeiningum yfirmanna, um að hleypa ekki fólki inn sem ekki er hvítt á hörund.
„Þau sögðu mér strax „ekki hleypa inn of mörgum Afríkubúum. Þú ættir ekki að leyfa mörgum frá Maghreb inn“,“ er haft eftir dyraverðinum í frönskum fjölmiðlum.
Atvikið átti sér stað þann 16. júlí á veitingastaðnum og næturklúbbnum Manko, sem stendur við götuna Avenue Montaigne.
Í myndskeiðinu sem konurnar náðu af atvikinu má heyra eina þeirra segja að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem hún upplifði kynþáttafordóma í sinn garð.
Dyravörðurinn bar það fyrir sig að þær væru ekki í nægilega fínum klæðnaði en þess má geta að þær voru í kjólum og hælaskóm.
Myndskeiðið fór í dreifingu á samfélagsmiðlinum TikTok og var dyravörðurinn rekinn í kjölfarið. Hann ber þó fyrir sig að hafa verið að fylgja „tilskipunum stjórnenda“.
Eigendurnir hafa vísað ásökunum um kynþáttafordóma á bug og hafa beðið konurnar þrjár afsökunar.
Franska lögreglan hóf á föstudaginn rannsókn á málinu vegna hugsanlegrar kynþáttamismununar.