Paul Sorvino látinn

Paul Sorvino árið 2010.
Paul Sorvino árið 2010. Ljósmynd/Wikipedia.org/David Shankbone

Bandaríski leikarinn Paul Sorvino, er látinn 83 ára að aldri. Hann var þekktastur fyrir að leika Paulie Cicero í mafíósamyndinni Goodfellas sem kom út árið 1990.

Roger Neal, kynningarfulltrúi Sorvino, sagði hann hafa látist af náttúrulegum orsökum á heimili sínu í Indiana-ríki í Bandaríkjunum.

Sorvino lék gjarnan lögreglumenn eða glæpamenn á ferli sínum sem hófst árið 1970. Hann lek í fleiri en 50 bíómyndum og í fjölda sjónvarpsþátta, meðal annars í lögguþáttunum „Law and Order“.

Hann lék einnig með Al Pacino í myndinni „The Panic in Needle Park“ árið 1971 og með James Caan í myndinni „The Gambler“ sem kom út árið 1974.

Sorvino lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn sem öll starfa í skemmtanabransanum. Mira Sorvino fetaði í fótspor föður síns og er leikkona en hún fékk óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni „Mighty Aphrodite“ sem kom út árið 1996.

„Það verður aldrei annar Paul Sorvino,“ skrifaði eiginkona hans Dee Dee Sorvino í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert