Raðir skotárása í Kanada

Borgin Langley er staðsett um 40 kílómetra suðaustur af Vancouver …
Borgin Langley er staðsett um 40 kílómetra suðaustur af Vancouver og telja íbúar hennar 29 þúsund manns. Skjáskot/Google Maps

Að minnsta kosti einn er látinn eftir raðir skotárása í Langley í Kanada. Samkvæmt neyðarviðvörun sem yfirvöld gáfu út áttu árásirnar sér stað á nokkrum mismunandi svæðum um klukkan sex í morgun að staðartíma, eða fyrir tæpum tveimur klukkustundum.

Skömmu síðar, eða rétt fyrir klukkan sjö, handtók lögregla karlmann sem er grunaður um að hafa framið ódæðið en ekki er búið að staðfesta hvort fleiri liggi undir grun, að því er segir í frétt kanadíska ríkisútvarpsins.

Árásirnar voru framdar á nokkrum stöðum í miðborg Langley en ein árásin fyrir utan borgarmörkin.

Fjöldi látinna hefur ekki verið staðfestur en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kanada voru fórnarlömbin heimilislaust fólk. Talið er að árásin hafi verið skipulögð.

Uppfært kl.15.49

Í upprunalegu útgáfu fréttarinnar stóð að nokkrir hefðu látist en samkvæmt nýjustu fréttum vestan hafs lést a.m.k. einn.

Sá grunaði hvítur karlmaður

Íbúar eru beðnir um að vera á varðbergi og halda sig fjarri þeim svæðum þar sem árásirnar áttu sér stað.

Í tilkynningu lögreglu segir að sá grunaði sé hvítur karlmaður með dökkt hár klæddur í brúnan Carhartt samfesting. Hann var líklega á hvítri bifreið en tegund og árgerð hennar var ekki gefin upp.

Borgin Langley er staðsett um 40 kílómetra suðaustur af Vancouver og telja íbúar hennar 29 þúsund manns. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert