Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hafnar því að Rússar hafi valdið alþjóðlegri matvælakreppu. Sakaði hann jafnframt vestrænar þjóðir um að reyna að þröngva yfirráðum sínum yfir á aðra.
Þetta kom fram í ræðu hans til sendiherra Arababandalagsins í Kaíró í Egyptalandi í dag. BBC greinir frá.
Úkaína er einn stærsti útflytjandi hveitis og korns á heimsvísu en Rússar hafa hindrað flutning frá landinu. Á föstudaginn var þó undirritað samkomulag um að hefja flutninginn á ný.
Lavrov sagði jafnframt hugmyndir vestrænna þjóða um að beita Rússa refsiaðgerðum benda til þess að þær séu að hugsa um heimsskipulagið, ekki Úkraínu.
Ráðherrann er nú í ferð um Afríku þar sem Rússar leita nú að stuðningi. Hann hefur áður sagt að Rússar kunni að meta stöðu Afríkuríkja í deilunni um Úkraínu.