Saka 92 Úkraínumenn um stríðsglæpi

Stjórnvöld í Rússlandi eru nú búin að ákæra 92 hermenn …
Stjórnvöld í Rússlandi eru nú búin að ákæra 92 hermenn úkraínska hersins fyrir stríðsglæpi. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi hafa ákært 92 liðsmenn úkraínska hersins fyrir glæpi gegn mannkyninu vegna aðgerða úkraínska hersins í kjölfar innrásar Rússlands í landið. 

Fréttastofa BBC greinir frá þessu á vefsíðu sinni.

Alexander Bastrykin, yfirmaður rannsóknar nefndar Rússlands, tilkynnti fréttastofu rússneska ríkisins, Rossiiskaya Gazeta, að rannsókn væri hafin á yfir 1.300 málum og stakk upp á að alþjóðlegur dómstóll yrði myndaður til að dæma í málunum. Dómstóllinn myndi þá samanstanda af Íran, Sýrlandi, Bólivíu og fleiri löndum sem styðja Rússland.

Fyrir utan þá 92 sem hafa verið ákærðir eru núna 96 hermenn Úkraínu eftirlýstir af stjórnvöldum í Rússlandi en þar af eru 51 herforingjar.

Meira en 21.000 tilfelli hafa verið tilkynnt sem stríðsglæpir framdir af rússneska hernum í Úkraínu og stendur rannsókn yfir þar í landi. 21 árs gamall rússneskur hermaður var fyrstur til að vera dæmdur fyrir stríðsglæp framinn í Úkraínu þegar hann játaði sig sek­an um stríðsglæp með því að hafa skotið til bana 62 ára óvopnaðan karl­mann á hjóli í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert