Ekki hefur tekist að ráða niðurlögum skógarelda á Tenerife, einni af Kanaríeyjum Spánar.
Eldurinn brast út á norðurhluta eyjarinnar á fimmtudaginn og hefur áhrif á fimm héruð: La Orotava, Los Realejos, San Juan de la Rambla, La Guancha og Icod de los Vinos.
Öryggismálaráðherra Kanaríeyja, Julio Pérez, sagði á blaðamannafundi í dag að ástandið væri þó stöðugt og færi ekki versnandi. Fyrr um daginn hafði hann fundað með fulltrúum slökkviliðsins og almannavarna. Canarian Weekly greinir frá.
Appelsínugul hitaviðvörun var í gildi á Tenerife á morgun sem bætti ekki úr skák en 2.800 hektarar af landi hafa þegar orðið eldinum að bráð.
Gul hitaviðvörun verður í gildi á Gran Canaria og Tenerife á morgun.
Um 600 manns úr þorpum í Los Realejos og La Oratava hafa þurft að flýja heimili sín en flestir hafa fengið að snúa aftur heim. Þó er ekki öruggt fyrir íbúa 30 heimila í Los Realejos að snúa aftur heim og er því enn rýming í gildi þar.