Sjónvarpskappræðum milli Liz Truss og Rishi Sunak, sem keppast um að verða næsti forsætisráðherra Bretlands, lauk skyndilega í kvöld þegar spyrillinn Kate McCann féll í yfirlið á sviðinu.
Kappræðurnar voru í beinni útsendingu á nýrri „TalkTv“ rás í eigu fjölmiðlajöfursins Robert Murdoch þegar útsendingin rofnaði.
Liz Truss var með orðið og í mynd þegar leið yfir McCann. „Guð minn góður“ hrópaði hún og yfirgaf púltið til að ganga í átt að McCann.
TalkTv-rásin sem hóf göngu sína í apríl staðfesti í kvöld að McCann hefði fallið í yfirlið. Þrátt fyrir að það væri í lagi með hana ráðlögðu læknar henni samt að halda útsendingunni ekki áfram.
Kosningu íhaldsflokksmanna um næsta leiðtoga lýkur 2. september og 5. september verður tilkynnt um nýjan forsætisráðherra Bretlands.
Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.