Ráðherrar Evrópusambandsins munu hittast í dag til að taka fyrir áætlun um að minnka notkun á gasi frá Rússlandi í vetur. Þetta er gert til að sporna gegn því sem iðnaðarráðherra Tékklands, Jozef Sikela, kallar kúgun Vladímír Pútíns og vísar þá til stefnu rússneska orkurisans Gazprom að draga úr útflutningi á gasi til Evrópuríkja.
Eins og greint hefur verið frá hefur Gazprom minnkað töluvert útflutning á gasi til Evrópuríkja og má nefna að í byrjun júlí hafði engu rússnesku gasi verið dreift til Þýskalands í gegnum Nord Stream-gasleiðsluna í tíu daga í röð.
„Pútín mun halda áfram að beita brögðum og misnota dreifingu gass og kúga Evrópu,“ sagði Sikela þegar hann mætti til fundar með öðrum iðnaðarráðherrum Evrópusambandsins í borginni Brussel í Belgíu í dag.
Hann ítrekaði að minnkun á útflutningi frá Gazprom væri enn eitt dæmið um það að Evrópuríki þurfi að taka málin í sínar hendur og gerast sjálfstæð í orkumálum án þess að þurfa að reiða sig á gas frá Rússlandi.
Samkvæmt nýjustu áætlun Evrópusambandsins er lagt upp með að öll ríki sambandsins minnki gasnotkun um 15 prósent fyrir marsmánuð.