Yfirdómur í Vín hefur ógilt úrskurð á neðsta dómstigi í Austurríki, þar sem vísað var frá skaðabótakröfu þýsks ferðamanns, sem smitaðist af kórónuveirunni á ferðalagi í skíðabænum Ischgl í mars árið 2020.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.
Þúsundir manna smituðust af veirunni í skíðabænum. Þangað barst veiran einna fyrst til Evrópu í faraldrinum og breiddist þaðan hratt út um álfuna og víðar. Í úrskurði yfirdómsins segir að gagnaöflun á fyrsta dómstigi hafi verið ábótavant og úr því þurfi að bæta, að því er fram kemur á vefsíðu austurríska dagblaðsins Die Presse í gær.
Málið snýst um þýskan ferðamann, sem smitaðist í Ischgl og þurfti að liggja vikum saman á sjúkrahúsi. Skaðabótakrafa hans hljóðaði upp á 90 þúsund evrur (12,5 milljónir króna). Rúmlega hundrað mál hafa verið höfðuð vegna meintrar vanrækslu stjórnvalda í Tíról út af Ischgl og mun úrskurðurinn á föstudag væntanlega hafa áhrif á framgang þeirra.
Ísland hefur komið við sögu í réttarhöldunum. Í yfirlýsingu frá austurrísku neytendasamtökunum, sem styðja málaferlin, segir að austurrísk yfirvöld beri ábyrgð á útbreiðslunni. Ferðamenn frá Ischgl hafi greinst jákvæðir þegar þeir sneru aftur til síns heima og yfirvöld í heimalöndum þeirra, með Ísland fremst í flokki, hafi varað austurrísk yfirvöld við, en þau hafi hikað og tekið seint við sér.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.