Tekinn af lífi fyrir að hafa myrt sjö manns

Frá handtöku Tomohiro Kato eftir árásina 2008.
Frá handtöku Tomohiro Kato eftir árásina 2008. Reuters

Tomohiro Kato var tekinn af lífi í Japan í dag fyrir að hafa myrt sjö manns í verslunarhverfi í Tókíó árið 2008.

Kato, sem þá var 25 ára gamall, ók vörubíl inn í mannfjölda og hóf síðan að stinga fólk af handahófi. Var hann handtekinn á staðnum skömmu eftir árásirnar.

„Þetta er mjög sársaukafullt mál sem leiddi til mjög alvarlegra afleiðinga og hneykslaði samfélagið,“ sagði Yoshihisa Furukawa dómsmálaráðherra Japans. Sagðist hann hafa samþykkt aftökuna eftir „afar ítarlega athugun“.

Lögreglan sagði Kato hafa greint frá áformum sínum á netinu, skrifað skilaboð í farsíma við stýrið á vörubílnum og kvartað undan óstöðugu starfi sínu og einmanaleika.

Saksóknarar sögðu að sjálfstraust hans hefði hrunið eftir að kona sem hann spjallaði við á netinu hætti skyndilega að svara honum þegar hann sendi henni mynd af sér. Reiði hans í garð almennings jókst þegar áform hans um að drepa fólk fengu engin viðbrögð, að sögn saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert