Bandaríkin segjast tilbúin að gefa Rússum „gott tilboð“ ef þeir framselja tvo Bandaríkjamenn, þar á meðal körfuboltakonuna Brittney Griner til Bandaríkjanna.
Þetta tilkynnti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, í dag. Þá sagðist hann einnig myndu tala við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, í fyrsta sinn síðan stríðið í Úkraínu hófst.
Blinken sagðist búast við símtali á næstu dögum við Lavrov um tillöguna um að sleppa Griner ásamt bandaríska sjóliðanum Paul Whelan en Griner sagði við dómstól fyrr í dag að hún hefði óviljandi komið með bönnuð eiturlyf inn í Rússland.
Fólkið „hefur ranglega verið í haldi og það verður að leyfa þeim að koma heim,” sagði Blinken við fréttamenn.
Blinken neitaði þó að staðfesta fregnir um að Bandaríkin byðust til að skipta á þeim og rússneska vopnasmyglaranum Vikor Bout.
Bandaríkin og Rússland hafa nú þegar einu sinni skipst á föngum síðan stríðið í Úkraínu hófst. Í apríl fengu Bandaríkin fyrrverandi bandaríska sjóliðann Trevor Reed í skiptum fyrir eiturlyfjasmyglarinn Konstantín Jarósjenkó.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur verið undir miklum þrýstingi að fá Griner lausa en hún gæti átt yfir höfði sér 10 ára fangelsisvist.