Bandaríska hagkerfið dróst saman annan ársfjórðunginn í röð samkvæmt gögnum bandarísku ríkisstjórnarinnar sem hafa kynt undir ótta um kreppu.
Verg landsframleiðsla dróst saman um 0,9 prósent á öðrum fjórðungi þessa árs en hún hafði dregist enn meira saman á fyrstu þremur mánuðum ársins, samkvæmt skýrslu viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna.
Þó það sé ekki formlega skilgreiningin er almennt er litið á neikvæðan hagvöxt tvo ársfjórðunga í röð sem sterka vísbendingu um að kreppa sé.
Þrátt fyrir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, segist sannfærður um að bandarískt hagkerfi sé ekki í niðursveiflu segir AFP það næsta víst að gagnrýnendur hans muni nota gögnin sem sönnun um lélega stjórn Bidens á hagkerfinu.
Bandaríska hagkerfið heldur áfram að berjast við himinháa verðbólgu sem er afleiðing af töfum í birgðakeðjunni vegna útgöngubanna á kórónuveirutímum og vegna innrásar Rússa í Úkraínu sem hefur valdið því að verð á matvælum og eldsneyti hefur hækkað mikið.
Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs einstaklinga hækkað um 7,1 prósent á síðustu þremur mánuðum og á sama hraða og á fyrsta fjórðungi ársins.
„Það kemur ekki á óvart að hagkerfið sé að hægja á sér þar sem Seðlabankinn hefur nú brugðist við til að ná niður verðbólgunni,“ sagði Biden í yfirlýsingu skömmu eftir að skýrslan um landsframleiðsluna var birt.
„En jafnvel þó við stöndum frammi fyrir sögulegum alþjóðlegum áskorunum, erum við á réttri leið og við munum komast í gegnum þessi þetta sterkari og öruggari,“ sagði hann og benti á að bandarískur vinnumarkaður væri enn sögulega sterkur og að hagkerfið hefði skapað meira en milljón störf undanfarna þrjá mánuði.