Að minnsta kosti 16 manns eru látnir í Kentucky-ríki í Bandaríkjunum í flóðum af völdum úrhellisrigninga, þar á meðal börn, að sögn ríkisstjóra Kentucky. Búist er við því að talan muni tvöfaldast.
„Talan mun hækka mjög mikið,“ sagði ríkisstjórinn Andy Beshear við CNN.
„Við munum missa margar fjölskyldur,“ sagði hann og bætti við: „Krakka sem ekki fá tækifæri til að þroskast og upplifa eins og við.“
Ríkisstjórinn sagði að þó svo að það komi oft flóð í austurhluta Kentucky „þá höfum við aldrei séð annað eins“.
Þá sagði hann að hundruð manna hafi verið bjargað með bátum og um 50 björgunaraðgerðir hafi verið framkvæmdar úr lofti með þyrlum þjóðvarðliðsins.
Fjöldi fólks varð að flýja upp á húsþök sín en bæði bílar og hús hafa farið á kaf og gjöreyðilagst.
Beshear varaði við því að eyðileggingunni sé langt frá því að vera lokið þar sem búist er við meiri úrkomu í dag.