Blinken þrýsti á Lavrov að samþykkja tilboðið

Blinken ræddi við blaðamenn að loknum fundi með Lavrov, en …
Blinken ræddi við blaðamenn að loknum fundi með Lavrov, en þeir hafa ekki fundað frá því áður en stríðið hófst. AFP

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kveðst hafa beitt þrýstingi á fundi sínum með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í þeim tilgangi að fá tvo Bandaríkjamenn lausa úr haldi. 

Lavrov og Blinken funduðu í dag og var þetta fyrsti fundur þeirra frá innrás Rússa í Úkraínu. 

„Við áttum beinskeittar og skorinorðar samræður. Ég þrýsti á rússnesk yfirvöld að samþykkja veglegt tilboð sem við lögðum fram,“ sagði Blinken á blaðamannafundi að loknum fundinum. 

Um er að ræða tilboð sem lýtur að því að Rússar láti þau Brittany Griner, körfuboltakonu, og Paul Whelan, fyrrverandi hermann sjóhersins, laus úr haldi. Á móti myndu Bandaríkjamenn sleppa Viktor Bout, rússneskum vopnasmyglara. 

Þá kvaðst Blinken einnig hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að Rússar virtu samkomulag sem Tyrkir höfðu miðlað, þess efnis að kornflutningur frá Úkraínu fái að hefjast á ný. 

Frá vinstri má sjá Viktor Brout sem Bandaríkjamenn bjóðast til …
Frá vinstri má sjá Viktor Brout sem Bandaríkjamenn bjóðast til að leysa úr haldi gegn því að Rússar sleppi Brittany Griner og Paul Whelan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert