Franskur slökkviliðsmaður hafi kveikt eldana

Skógareldar í Frakklandi í júlí.
Skógareldar í Frakklandi í júlí. AFP

Franskur slökkviliðsmaður hefur verið handtekinn grunaður um að standa á bak við röð skógarelda í Hérault-héraði í Suður-Frakklandi sem hann segist hafa kveikt í leit að adrenalíni.

Fabrice Belargent, saksóknari í Montpellier, sagði í yfirlýsingu að maðurinn, sem sinnir slökkvistarfinu sem sjálfboðaliði, hefði viðurkennt að hafa kveikt elda með kveikjara 26. maí, 21. júlí og nú síðast aðfaranótt 27. júlí.

„Spurður um ástæðu sína lýsti hann því yfir að hann hefði gert þetta til að framkalla útkall slökkviliðsins til að bjarga honum frá þrúgandi fjölskylduumhverfi og vegna spennunnar sem útköllin veittu honum,“ sagði Belargent.

„Adrenalín kallaði hann þetta – þetta eru hans eigin orð,“ sagði saksóknarinn.

Slökkviliðsmaður og skógarvörður

Ásamt því að vera sjálfboðaliði í slökkviliðsstarfaði starfaði hann í fullu starfi sem skógarvörður og var það eitt helsta hlutverk hans að koma í veg fyrir eldsvoða.

Lögfræðingur mannsins sagði hann hafa lýst yfir mikilli eftirsjá og sterkri skömm meðan á yfirheyrslunum stóð.

„Hann á erfitt með að útskýra. Á vissan hátt er honum létt yfir að hafa verið handtekinn. Hann útskýrir þetta sem fíkn,“ sagði lögfræðingurinn.

Verði maðurinn fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi og 150.000 evru (tæp 21 milljón króna) sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert