Hafist var handa í dag við að flytja korn um borð í tyrkneskt flutningaskip í suðurhluta Úkraínu. Er þetta fyrsta skipið sem flytur korn frá Úkraínu frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, heimsótti höfnina í suðurhluta Úkraínu og hafði umsjón með lestun kornsins. Kornið verður síðan flutt til dreifingar.
„Verið er að flytja korn um borð í fyrsta skipið síðan stríðsátök hófust. Þetta er tyrkneskt flutningaskip,“ segir í tilkynningu frá forsetaembættinu. Til stendur að flytja milljónir tonna af úkraínsku korni sem hefur ekki komist til dreifingar sökum stríðsins frá landinu.
Rússland og Úkraína undirrituðu fyrir viku tímamótasamning við Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkland um að hefja flutning á korni á ný. Gæti þetta létt á alþjóðlegri matvælakreppu. Þó varð bakslag að loknum samningsviðræðum eftir að Rússar skutu eldflaugum á Ódessa-höfn í Úkraínu einum degi síðar.