Forsvarsmenn samfélagsmiðilsins TikTok viðurkenna að hafa stöðvað tilraunir kínverskra stjórnvalda sem lutu að því að opna dulbúinn reikning á miðlinum, í áróðurstengdum tilgangi.
Samkvæmt heimildum Guardian, kom TikTok í veg fyrir þetta vegna þess að það þótti ganga gegn þeim meginreglum sem fyrirtækið hefur sett sér.
Í apríl 2020 fékk Elizabeth Kanter, sem annast samskipti við stjórnvöld í Bretlandi, Írlandi, Hollandi og Ísrael, fyrir hönd TikTok, fyrirspurn vegna þessa. Var fyrirspurnin orðuð með þeim hætti að opinber aðili frá Kína hefði áhuga á að stofna reikning á TikTok.
Hvergi mætti koma fram að um opinberan reikning væri að ræða enda væri megintilgangur reikningsins að framleiða efni sem sýndi bestu hliðar Kína.
Fyrirspurnin féll ekki vel í kramið hjá æðstu stjórnendum fyrirtækisins, eftir því sem fram kemur í frétt Guardian. Talsmaður TikTok segir að fyrirspurnin hafi komið í gegnum starfsmann TikTok.
TikTok-notendur telja um milljarð og er forritið í eigu kínverska tæknirisans ByteDance.
Reglur sem fyrirtækið hefur sett sér banna samhæfða falska hegðun notenda, enda hafi hún þann tilgang að hafa áhrif á skoðun almennings. Þá er einnig lagt bann við því að afvegaleiða einstaklinga, samfélagið eða villa um fyrir kerfinu svo það fái ekki réttar upplysingar um það hver sé að baki reikningnum.
Nú er hafin vinna innan TikTok við að þróa forritið þannig að hægt sé að merkja sérstaklega allt efni sem kemur frá stjórnvöldum.