Dauði innflytjanda um hábjartan dag í miðbæ bæjar á Ítalíu hefur vakið mikla reiði.
BBC greinir frá því að maður réðst á nígerískan götusala í miðbæ Civitanova Marche á austurströnd Ítalíu í gær og náðist myndskeið af atvikinu.
Myndskeiðið var tekið upp af vitnum sem gerðu lítið til að stöðva árásarmanninn er hann réðst á innflytjandann sem lá á götunni.
32 ára gamall Ítali hefur verið handtekinn grunaður um morðið og þjófnað.
Myndskeiðinu hefur verið dreift á samfélagsmiðlum og í ítölskum fjölmiðlum og hefur vakið mikla reiði vegna „afskiptaleysi“ vitna. Óljóst er hvað leiddi til árásarinnar.
Maðurinn sem lést hét Alika Ogorchukwu. Hann var giftur og átti tvö börn.
Fjöldi nígerískra innflytjenda mótmæltu á götum Civitanova Marche í kvöld og kölluðu eftir réttlæti.