Þjálfari sænska kvennalandsliðsins í handknattleik undir 18 ára er í haldi lögreglunnar í Kaupmannahöfn eftir að hann var handtekinn fyrir sprengjuhótun á Kastrup-flugvellinum þar í borg í gær þaðan sem landsliðið var á leið til forkeppni heimsmeistaramótsins í Skopje í Makedóníu.
Tildrög málsins voru þau að við farangursinnritun var landsliðsþjálfarinn spurður um innihald tösku sinnar. Kvaðst hann þá vera með sprengju í töskunni og ætlaði sér þar að slá á létta strengi en sú viðleitni féll í grýttan jarðveg.
Var maðurinn handtekinn tafarlaust og öll flugstöðvarbygging númer tvö á Kastrup rýmd á meðan sprengjusveit fór gegnum farangur Svíans. Þar reyndist engin sprengja leynast og var flugfarþegum hleypt inn í bygginguna á nýjan leik en landsliðsþjálfarinn færður í fangageymslur og kæra lögð fram á hendur honum fyrir hótanir.
Að sögn sænska dagblaðsins Aftonbladet vék sænska handknattleikssambandið manninum þegar frá störfum tímabundið. „Við bregðumst auðvitað strax við svona löguðu,“ segir Hanna Fogelström, yfirþjálfari sænska landsliðsins, í samtali við Aftonbladet, „viðkomandi hefur verið útilokaður frá okkar starfi, hegðun hans er orðin að lögreglumáli. Nú er okkur það mikilvægast að liðið og aðrir stjórnendur þess komist á áfangastað.“
Innt eftir því hvort þjálfarinn verði látinn fara sagði Fogelström að ekkert væri afráðið í þeim efnum. „Hann hafði ákveðið verkefni sem hann er útilokaður frá.“ Hvað þykir henni þá um háttsemi hans á flugvellinum? „Þetta er engan veginn í lagi, hvorki hvað snertir stöðu hans hjá [handknattleiks]sambandinu né sem manneskju,“ segir Fogelström.
„Þegar einhver segir „sprengja“ á flugvelli rannsökum við málið,“ segir Espen Godiksen, varðstjóri hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn, í samtali við dönsku TV2-sjónvarpsstöðina. „Við verðum alltaf að vinna út frá því að um sprengju geti verið að ræða. Þess vegna rýmdum við alla bygginguna. Við viljum sérstaklega undirstrika að fólk sé ekki að spauga með svona lagað því við munum þá bregðast við,“ segir varðstjórinn enn fremur.