Hjón í Kentucky-ríki í Bandaríkjunum misstu öll börnin sín fjögur í flóðunum í gær. 25 eru látnir í hamförunum, þar af 6 börn.
New York Times segir sögu fjölskyldunnar.
Foreldrarnir, Amber Smith og Riley Noble, heyrðu viðvörunina um flóðin klukkan tvö aðfaranótt föstudags. Þau klæddu börnin sín fjögur og þegar vatn tók að flæða inn í húsbíl þeirra flýttu þau sér á þakið.
Að lokum urðu þau að hjálpa börnunum sínum upp í tré en vatnsstraumurinn var of sterkur. Öll fjögur börnin létust í flóðunum.
Frænka konunnar, Brittany Trejo, sagði sögu þeirra en börnin sem voru á aldrinum tveggja til fjögurra ára fundust látin í gær.
Foreldrarnir fóru með börnin úr hjólhýsinu en vatnið kom úr öllum áttum. Þau héldu í hendur eldri barnanna og föðmuðu þau yngri er hjólhýsið flaut að nærliggjandi tré.
„Amber sagði að það eina sem hún hefði séð væri vatn og það hefði hækkað og hækkað, jafnvel enn þegar þau voru komin upp í tréð,“ sagði Trejo.
Þau reyndu að hringja á hjálp en neyðarlínur lágu niðri og þegar vatnsyfirborðið hækkaði misstu þau hvert barnið á fætur öðru í vatnið og í burtu frá trénu. „Reiði vatnsins tók börnin úr höndum þeirra,“ sagði hún.
Foreldrarnir héldu sér fast í tréð í átta klukkustundir áður en þeim var bjargað af manni á kajak sem sá að þau þurftu aðstoð.
Að sögn Trejo var fjölskyldan mjög náin og mjög ástrík.