Francis páfi hefur lýst því yfir að fljótlega gæti komið til þess að hann láti af embætti. Það kveðst hann munu gera ef hann neyðist til, af heilsufarslegum ástæðum.
Þessi orð lét hann falla þegar hann ávarpaði hóp fólks í lok heimsóknar sinnar til Kanada.
Francis páfi er 85 ára gamall og hefur verið að glíma við hrakandi heilsu sökum aldurs, sérstaklega verki í hnjám sem hafa gert það að verkum að hann hefur eytt meirihluta heimsóknar sinnar í hjólastól.
Hann kveðst ætla að halda áfram að sinna skyldum sínum þar til Guð leiðir hann í aðra átt.
„Það er enginn heimsendir fólginn í því að skipta um páfa. Það er ekki bannað. Dyrnar að starfslokum eru opnar, það er eðlilegt. Í dag hef ég þó ekki enn barið á þær dyr og ég hef ekki fundið fyrir ástæðu til þess. Aftur á móti kann það að breytast innan tveggja daga.“
Þá bætti hann við að ferðalagið til Kanada hafi verið strembið og hann muni ekki geta haldið áfram að ferðast með sama hætti og hann var vanur, í ljósi hækkandi aldurs og veikra hnjáa.
„Ég þarf annaðhvort að fara meira sparlega með mig, til þess að geta haldið áfram að þjóna kirkjunni, eða íhuga að stíga til hliðar.“
Að lokum sagðist hann hafa áhuga á því að heimsækja Úkraínu fljótlega, en fyrst yrði hann að ráðfæra sig við lækninn sinn.