Karl Bretaprins þáði um eina milljón punda, eða um 166 milljónir íslenskra króna, frá fjölskyldu Osama bin Laden sem runnu til góðgerðarsamtaka prinsins.
Þessu greinir The Sunday Times frá.
Karl á að hafa þegið pening frá Bakr bin Laden og Shafiq sem eru hálfbræður hryðjuverkamannsins Osama bin Laden sem stofnaði al-Qaeda. Engar upplýsingar benda þó til að Bakr og Shafiq tengist hryðjuverkum.
Í október árið 2013 hittust Karl og Bakr, sem er æðstimaður bin Laden fjölskyldunnar, á heimili prinsins í Clarence-húsi in Lundúnum. Tveimur árum eftir að Osama bin Laden var skotinn til bana af leyniþjónustu Bandaríkjanna.
Talsmenn Karls segja að ákvörðunin um að þiggja peningana hafa verið að öllu leyti tekin af stjórnendum góðgerðasamtaka prinsins (PWCF).
Ian Cheshire, stjórnarformaður PWCF, sagði í yfirlýsingu að peningagjöfin hafi verið tekin vandlega til skoðunar af stjórnendum samtakana.
„Upplýsinga var leitað frá ýmsum aðilum, meðal annars stjórnvöldum. Ákvörðunin var tekin að öllu leyti af stjórnendum á þeim tíma. Allar tilraunir til að gefa annað í skyn eru villandi og rangar.“
Samkvæmt heimildamanni komust stjórnendur að þeirri niðurstöðu að gjörðir Osama bin Laden skyldu ekki sverta orðspor allrar bin Laden fjölskyldunnar.
Einungis er rúmur mánuður frá því að sami fjölmiðill greindi frá því að Karl hafi tekið við skjalatösku, sem hafði að geyma eina milljón punda í reiðufé, frá umdeildum katörskum stjórnmálamanni.
Í síðustu viku var greint frá því að nefnd sem rannsakaði peningagjöfina myndi ekki aðhafast frekar í málinu.